
Yfirlýsing 12. ágúst 2020 |
![]() |
Yfirlýsing frá Verðlagsstofu skiptaverðs
Vegna opinberrrar umræðu síðustu daga um aðkomu Verðlagsstofu skiptaverðs að umfjöllun um meðalverð á karfa í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í byrjun árs 2012 er rétt að fram komi að Verðlagsstofa skiptaverðs tók saman upplýsingar um karfaútflutning áranna 2010 og 2011 og sendi nefndinni vegna athugunar á máli sem þá var til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd.
Um var að ræða excelskjal sem unnið var af starfsmanni Verðlagsstofu og innihélt tölulegar upplýsingar sem unnar voru upp úr gagnagrunnum Fiskistofu. Í skjalinu er tafla sem sýnir allan útflutning á karfa frá Íslandi yfir fyrrgreint tímabil eftir hvaða skip veiddi aflann, aflaverðmæti og magni.
Ekki var skrifuð sérstök skýrsla af hálfu Verðlagsstofu af þessu tilefni og ekki lagt efnislegt mat á þær upplýsingar sem þarna voru dregnar saman og sendar úrskurðarnefnd. Hins vegar var áréttað að um trúnaðargögn væri að ræða.
Hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs
Samkvæmt lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998 hefur Verðlagsstofa það hlutverk að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Verði Verðlagsstofa vör við misræmi og telji skýringar útgerðar ófullnægjandi getur hún skotið málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Til úrskurðarnefndarinnar skulu fylgja öll gögn sem Verðlagsstofa hefur aflað um uppgjör á aflahlut áhafnar skips svo og nauðsynlegar upplýsingar um verðlagningu sambærilegs afla í hliðstæðum viðskiptum.
Trúnaður
Þau gögn sem Verðlagsstofa safnar og vinnur fyrir úrskurðarnefndina eru trúnaðargögn, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1998, og eru starfsmenn Verðlagsstofu, sem og nefndarmenn úrskurðarnefndar, bundin þagnarskyldu. Starfsmenn Verðlagsstofu og nefndarmenn úrskurðarnefndar geta þar af leiðandi ekki tjáð sig um einstaka mál sem til umfjöllunar eru hverju sinni né þau gögn sem heyra þar undir.
Viðmiðunarverð óbreytt í ágúst 2020 |
![]() |
Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna (SSÍ, FS, VM) og útvegsmanna (SFS, LS), sem haldinn var 5. ágúst 2020, var ákveðið að viðmiðunarverð skv. kjarasamningum yrði óbreytt miðað við ákvörðun frá 3. júlí 2020.
Þetta á við afla sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila.
Nýtt viðmiðunarverð 3. júlí 2020 |
![]() |
Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna (SSÍ, FS, VM) og útvegsmanna (SFS, LS), sem haldinn var 3. júlí 2020, var ákveðið að breyta viðmiðunarverði skv. kjarasamningum á eftirfarandi hátt:
Slægður þorskur lækkar um 3,0%
Aðrar tegundir óbreyttar.
Þetta á við afla sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila. Breytingin tekur gildi 3. júlí 2020.
Breyting þessi er gerð með tilvísun í 1. gr. l. nr. 13/1998.
Viðmiðunarverð óbreytt í júní 2020 |
![]() |
Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna (SSÍ, FS, VM) og útvegsmanna (SFS, LS), sem haldinn var 4. júní 2020, var ákveðið að viðmiðunarverð skv. kjarasamningum yrði óbreytt miðað við ákvörðun frá 6. maí 2020.
Þetta á við afla sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila.
Nýtt viðmiðunarverð 6. maí 2020 |
![]() |
Á fundi hagsmunasamtaka sjómanna (SSÍ, FS, VM) og útvegsmanna (SFS, LS), sem haldinn var 6. maí 2020, var ákveðið að breyta viðmiðunarverði skv. kjarasamningum á eftirfarandi hátt:
Slægður þorskur lækkar um 7,2%
Óslægður þorskur lækkar um 8,8%
Slægð ýsa lækkar um 10,8%
Óslægð ýsa hækkar um 1,9%
Karfi lækkar um 5%
Ufsi helst óbreyttur
Þetta á við afla sem ráðstafað er til eigin vinnslu eða seldur til skyldra aðila. Breytingin tekur gildi 6. maí 2020.
Breyting þessi er gerð með tilvísun í 1. gr. l. nr. 13/1998.
Afgreiðslutími mánudaga-fimmtudaga
kl. 9:00 - 15:00
Föstudaga kl. 9:00 - 14:00
Millifærslur óheimilar án fiskverðssamninga
Að gefnu tilefni skal bent á að skv. 4. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skipaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, er útgerð skylt að senda Verðlagsstofu án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar eins og kjarasamningar segja til um að skuli gera.
Í 6. gr. sömu laga er tekið fram að Verðlagsstofa skuli að beiðni Fiskistofu og í tilefni af framsali aflamarks skv. 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, staðfesta að fyrir liggi samningur á milli útgerðar og áhafnar um fiskverð til uppgjörs.
Flutningur aflamarks á skip er því ekki heimill nema fyrir liggi hjá Verðlagsstofu fiskverðssamningur á milli áhafnar og útgerðar eða yfirlýsing um að ekki sé greiddur aflahlutur til annarra sjómanna en eiganda/eigenda (einn á báti). Eyðublöð þess efnis má finna hér efst á síðunni, undir liðnum Eyðublöð.
_______________________________________
Til sjómanna og útvegsmanna v/ byggðakvóta
Til þess að útgerð geti flutt aflamark á skip verður að liggja fyrir fiskverðssamningur á milli útgerðar og áhafnar, um ráðstöfun afla, sem samþykktur hefur verið af Verðlagsstofu. Verð á þorski, ýsu, karfa og ufsa í beinum viðskiptum á milli skyldra eða óskyldra aðila skal aldrei vera lægra en viðmiðunarverð á þessum tegundum er hverju sinni.
Nokkuð hefur borið á því að útgerðir sem hafa fengið byggðakvóta og landa afla í heimabyggð telja sig geta samið við sjómenn um verð sem er talsvert undir viðmiðunarverði.
Skv. 7. gr. reglugerðar nr. 605/2015, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2015/2016, er slíkt ekki leyfilegt.
Af þessu tilefni vill Verðlagsstofa benda útgerðum og sjómönnum á að Verðlagsstofa getur ekki samþykkt slíka fiskverðssamninga á milli útgerða og áhafna. Það er með öðrum orðum óheimilt að gera slíka samninga.
____________________________________
Afgreiðslutími:
mánudaga-fimmtudaga kl. 9:00 - 15:00
föstudaga kl. 9:00 - 14:00