NÍ-síld - Hráefni og afurðir - Verðsamanburður milli Íslands og Noregs
NÍ-síld - Hráefni og afurðir - Verðsamanburður milli Íslands og Noregs
Verðlagsstofa skiptaverðs hefur tekið saman hráefnisverð og afurðaverð fyrir norsk-íslenska síld á Íslandi og Noregi fyrir árin 2012-2019. Verðupplýsingar síldar á Íslandi eru unnar upp úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum innsendum af aflakaupa til Fiskistofu. Aðeins eru notaðar upplýsingar frá fyrirtækjum á Íslandi sem kaupa afla (hráefni) í beinum viðskiptum af innlendum skipum og reka landvinnslu og bræðslu.
Eftirfarandi verðupplýsingar fyrir síld í Noregi byggjast á upplýsingum frá Norges Sildesalgslag og eiga við um norsk skip sem landa síld til frekari vinnslu eða bræðslu í Noregi. Miðgengi (meðaltal ársins) NOK/ISK er notað til að skipta yfir í íslenskar krónur.
Upplýsingar um afurðaverð fyrir Ísland og Noreg eru sóttar hjá Hagstofu Íslands og hagstofu Noregs.
Birting verðupplýsinga frá öðrum löndum
Hinn 27. maí sl. lauk umboðsmaður Alþingis umfjöllun sinni um kvörtun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi yfir því að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt samkvæmt lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, með birtingu á vefsvæði sínu 21. ágúst 2019 á samantekt hráefnis- og afurðaverðs fyrir makríl á Íslandi og Noregi fyrir árin 2012-2018.
Í bréfi umboðsmanns Alþingis segir hann að með hliðsjón af þeirri rúmu heimild sem löggjafinn veitir Verðlagsstofu skiptaverðs til söfnunar upplýsinga um fiskverð og skýringa stofnunarinnar um markmið upplýsingaöfluninar, telur hann ekki forsendur af hans hálfu til að leggja til grundvallar að stofnuninni hafi verið óheimilt að afla umræddra upplýsinga um fiskverð í Noregi. Í ljósi þeirra umkvartana sem stofnuninni hafa borist vegna verðlagningar á makríl telur hann heldur ekki forsendur til að leggja til grundvallar að það sé ósamrýmanlegt lögbundnu hlutverki stofnunarinnar að vinna úr slíkum samansöfnuðum upplýsingum samantekt um verðlagningu tegundarinnar á Íslandi og Noregi.
Framkvæmd Verðlagsstofu hingað til hefur verið sú að birta einungis tölulegar upplýsingar um innlent fiskverð og beitti stofan sama verklagi við birtingu á verðupplýsingum frá öðrum löndum. Umboðsmaður Alþingis kemur inn á það í bréfi sínu að önnur sjónarmið kunni að eiga við í þeim tilfellum og að það geti skipt máli að lesendur verðsamanburðar séu meðvitaðir um að ólíkar forsendur kunni að búa að baki verðmyndun erlendis. Auk þess sé mikilvægt að við birtingu upplýsinga séu þær settar fram með skýrum hætti og með viðeigandi skýringum.
Í ljósi ofangreinds telur Verðlagsstofa tilefni til þess að halda áfram birtingu verðupplýsinga frá öðrum löndum, í samhengi við innlent verð, þannig að það gagnist útvegsmönnum, sjómönnum og fiskkaupendum sem best. Í samræmi við leiðbeiningar frá umboðsmanni Alþingis er í ofangreindri skýrslu vakin athygli á þeim ólíku þáttum sem kunna að leiða til mismunandi verðlagningar á milli landa.