Úrskurður nr. 2/2017
Þriðjudaginn 21. nóvember 2017 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.
Fyrir er tekið mál nr. Ú2/2017:
Verðlagsstofa skiptaverðs
gegn
útgerðinni Vinnslustöðinni hf. vegna skipanna Kaps VE-4 (1742) og Ísleifs VE-63 (2388).
Gögn málsins:
- Tölvupóstur frá starfsmanni Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 9. nóvember 2017 um málskot til úrskurðarnefndar.
- Tölvupóstur dags. 20. nóvember 2017 með fundarpunktum af fundi úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með nefndarmönnum skipuðum af hagsmunaaðilum 15. nóvember 2017.
- Greinargerð fulltrúa sjómanna dags. 17. nóvember 2017.
- Tölvupóstur frá starfsmanni Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 17. nóvember 2017 með uppfærðu útreikningsskjali.
- Greinargerð fulltrúa SFS dags. 19. nóvember 2017
- Tölvupóstur forstöðumanns Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 20. nóvember 2017 með athugasemdum við greinargerð fulltrúa SFS.
- Upplýsingar um fund fullskipaðrar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 20. nóvember 2017.
Atvik og sjónarmið aðila:
Mál þetta á rætur sínar að rekja til málskots Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 9. nóvember 2017 vegna verðlagningar Vinnslustöðvarinnar hf. (hér eftir útgerðin) á Íslandssíld hjá áhöfnum skipanna Kaps VE-4 (1742) og Ísleifs VE-63 (2388).
Málskotið byggir á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Undanfari þess er sá að Verðlagsstofa fær almennar upplýsingar um fiskverð á grundvelli 4. gr. laganna frá útgerðum. Ef fram kemur í þeim upplýsingum að fiskverð víki við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er, við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, skuli Verðlagsstofa taka málið til sérstakrar athugunar. Í umræddri 2. mgr. 7. gr. kemur fram að Verðlagsstofa skuli skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar telji hún ekki fram komnar fullnægjandi skýringar á fiskverði við þessa sérstöku athugun.
Málsatvik þessa máls eru þau að Verðlagsstofa skiptaverðs tilkynnti útgerðinni með tölvupósti dags. 19. október 2017 um mat sitt á upplýsingum um verð útgerðarinnar á síld. Í tölvupóstinum segir að „verðið á síld, til vinnslu og í bræðslu upp úr sjó víkur í verulegum atriðum frá því sem algengast er skv. mati Verðlagstofu.“. Í sama tölvupósti er óskað eftir umsögn útgerðar vegna málsins. Í bréfi útgerðarinnar dags. 24. október 2017 kemur fram að útgerðin hafi sent Verðlagsstofu upplýsingar við upphaf síldarvertíðar um forsendur verðútreikninga og að mati útgerðarinnar hafi þær forsendur staðist að mestu leyti, nema hvað varðar afurðaverð, en það hafi verði lægra en reiknað var með. Með hliðsjón af breytingum á afurðaverði og gengisbreytingar m.v. verð síðasta árs þá vísar útgerðin til þess að hún sé mögulega frekar að greiða hærra verð en hún ætti að gera, frekar en lægra. Einnig vísar útgerðin til þess að hún sé að selja nokkrar birgðir fyrra ári sem hafi áhrif á verð.
Í öðrum tölvupósti dags. 27. október 2017 frá Verðlagsstofu skiptaverðs til útgerðarinnar kemur aftur fram sú afstaða Verðlagsstofu að „verðið á síld, til vinnslu og í bræðslu upp úr sjó víkur í verulegum atriðum frá því sem algengast er skv. mati Verðlagstofu.“ og í tölvupóstinum bendir Verðlagsstofa útgerðinni einnig á að upplýsingar útgerðarinnar um verð á síldarhrati, þ.e. að útgerðin greiði ekkert fyrir hratið. Í þessum tölvupósti er einnig óskað eftir umsögn útgerðar vegna málsins. Í bréfi útgerðarinnar dags. 3. nóvember 2017 vísar útgerðin til þeirra fiskverðssamninga sem í gildi séu við áhafnir skipanna Kaps VE-4 og Ísleifs VE-63 um að ekki sé greitt fyrir hrat. Einnig vísar útgerðin til þess að hrat sé ekki hráefni heldur aukaafurð sem verði til við vinnslu á síld. Einnig vísar útgerðin til þess að hún telji „eðlilegast að það hráefni sem ráðstafað er í frystingu taki mið af frystiverðum og það hráefni sem ráðstafað er í bræðslu taki mið af mjöl- og lýsisverðum.“
Mat Verðlagsstofu, eftir skýringar fyrrnefndar skýringar útgerðarinnar var að verð á síld vikju verulega frá því sem algengast er, við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða og að ekki hefðu komið fram fullnægjandi útskýringar á umræddum verðmun. Var því málinu vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. fyrirmælum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 og var málskoti ásamt gögnum sent til nefndarinnar með tölvupósti dags. 9. nóvember 2017.
Með málskoti fylgdu upplýsingar um verð annarra útgerða á Íslandssíld og samanburður Verðlagsstofu m.t.t. upplýsinga um landaðan afla m.v. þær upplýsingar sem Verðlagsstofa hafði þann sama dag, 9. nóvember 2017. Frekari útreikningar bárust nefndinni þann 20. nóvember 2017 .
Í 13. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skuli þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, taka málið til umfjöllunar og skal ákvörðun þeirra liggja fyrir innan sjö daga. Þeir nefndarmenn komu saman á fundi sem haldinn var 15. nóvember 2017. Í fundarpunktum vegna þess fundar kemur fram nefndarmenn myndu ekki ná samkomulagi á þessu stigi málins og var málinu því vísað til fullskipaðrar nefndar 16. nóvember 2017. Fundur nefndarinnar, fullskipaðrar, var boðaður 20. nóvember 2017 og nefndarmenn fengu sendar athugasemdir frá fulltrúum útgerðar, sjómanna og Verðlagsstofu þann 20. nóvember 2017.
Mánudaginn 20. nóvember 2017 kom fullskipuð úrskurðarnefnd saman að Stórhöfða 25 í Reykjavík. Á fundinum var farið yfir hvort formkröfur laga nr. 13/1998 væru uppfylltar varðandi málskot og gögn þess og forsendur ræddar.
Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd komu á framfæri skriflegum athugasemdum með bréfi dags. 17. nóvember 2017 sem og munnlegum athugasemdum á fundinum sjálfum. Aðallega var þar bent á að útreikningar samtaka sjómanna bentu til þess að Vinnslustöðin hf. væri að greiða mun lægra hlutfall af afurðaverði fyrir síld upp úr sjó en aðrar útgerðir eða um 11% en munurinn á verði á síld til bræðslu væri um 9%. Hagsmunasamtök sjómanna taka undir mat Verðlagsstofu á því að verð víki verulega frá því sem algengast er í skilningi laga nr. 13/1998.
Fulltrúar útvegsmanna komu einnig á framfæri skriflegum athugasemdum með bréfi dags. 19. nóvember 2017 og munnlegum athugasemdum á fundi fullskipaðrar nefndar 20. nóvember 2017. Þar kemur aðallega fram sú krafa að málinu sé vísað frá þar sem rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið fullnægt af hálfu Verðlagsstofu og útgerðinni hafi því ekki gefist kostur á að nýta lögbundinn andmælarétt skv. 13. gr. sömu stjórnsýslulaga. Varakrafa fulltrúa útvegsmanna lýtur síðan að því að ekki hafi verið sýnt fram á að verð útgerðarinnar víki í verulegum atriðum frá því sem algengast er í skilningi 7. gr. laga nr. 13/1998. Þar er vísað aðallega til þess að það sé ekki skýrt í mati Verðlagsstofu að hve miklu leyti sé tekið tillit til eftirfarandi þátt við mat á verði síldar: gæði afurða, hratverð, ráðstöfun afla, gengi, verð frá útgerðum sem greiða hærra verð en algengast er og áhrif framtíðarhorfa. Fulltrúar útvegsmanna benda á að á meðan greining Verðlagsstofu liggi ekki fyrir á þessum þáttum og áhrif þeirra á verð þá sé ekki hægt að fullyrða að verð útgerðarinnar víki verulega frá því sem algengast er.
Með tölvupósti dags. 21. nóvember 2017 tilkynnti formaður úrskurðarnefndar öðrum nefndarmönnum þá afstöðu sína að ekki væri ástæða til að vísa málinu frá á þeim grundvelli að Verðlagsstofa hefði ekki sinnt skyldum sínum sem stjórnvald skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Einnig kom fram afstaða formannsins um að þó ekki væri ástæða til að vísa málinu frá vegna þess væri ekki væri hægt að fallast á að gögn málsins sýndu með nægilega skýrum hætti að verð víki verulega frá því sem algengast er í skilningi 7. gr. laga nr. 13/1998. Fulltrúar tilnefndir af útvegsmönnum samþykktu þá niðurstöðu en fulltrúar hagsmunasamtaka sjómanna greiddu atkvæði á móti.
NIÐURSTAÐA
Í málinu liggur fyrir að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 getur Verðlagsstofa skiptaverðs skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. ákvæði 7. gr. sömu laga. Þetta málskot byggir á orðalagi 2. mgr. 7. gr. laganna um að stofnunin skuli skjóta máli til úrskurðarnefndar ef ekki berast fullnægjandi skýringar á fiskverði sem Verðlagsstofa telur víkja í verulegum atriðum frá því sem algengast er skv. 1. mgr. 7. gr. sömu laga.
Til þess að úrskurðarnefnd geti tekið ákvörðun um annað fiskverð en það sem útgerðin Vinnslustöðin hefur lagt til grundvallar til áhafna skipanna Kaps VE-4 (1742) og Ísleifs VE-63 (2388), verður að liggja fyrir að við uppgjör á aflahlut áhafnar víki fiskverð í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða. Í samantekt Verðlagsstofu sem fylgir með málskoti til nefndarinnar eru samskiptum Verðlagsstofu og útgerðarinnar lýst og forsendur fiskverðssamninga útgerða tilgreindar. Þar er einnig tekið fram að ekki séu gefnar upp í fiskverðssamningi „beinar lýsingar á því hvernig uppgjörsverð skuli reiknað (hlutfall af afurðaverði) og ekki hægt að sjá að samið sé sérstaklega um það, heldur gefur útgerð út verðtöflu með uppgjörsverðum vinnsluflokka.“ Verlagsstofa taldi því að enn væri verðmunur þannig að að verð viki verulega frá því sem algengast væri í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 og vísaði málinu, eins og áður segir, til úrskurðarnefndar 9. nóvember 2017.
Nákvæmari tölulegar upplýsingar voru síðan lagðar fram af hálfu Verðlagsstofu með tölvupósti dags. 17. nóvember 2017. Um er að ræða tölulegar upplýsingar um verð á síld til vinnslu annars vegar og síld í bræðslu hins vegar frá samtals sjö útgerðum þar sem Vinnslustöðin hf. er sérstaklega merkt með verð undir meðalverði, ásamt tveimur öðrum útgerðum, þegar litið er til verðs á síld til vinnslu. Þar kemur því fram að þrjár útgerðir greiði lægra verð til áhafna heldur en reiknað heildarmeðalverð allra og fjórar útgerðir greiði hærra verð en heildarmeðalverð allra. Þegar litið er einungis til verðsins má sjá að skv. upplýsingum sem Verðlagsstofa tilgreinir í tölulegum upplýsingum og útreikningum sínum hafi verð hjá Vinnslustöðinni hf. sé um 10% lægra en meðalverð fyrir síld til vinnslu en að hinar tvær útgerðirnar sem greiði lægra verð en meðalverð greiða um 10-15% lægra verð. Þess ber einnig að geta að tvær aðrar útgerðir skera sig nokkuð úr varðandi verð og greiða um 10-15% hærra verð en meðalverð á meðan hinar tvær útgerðirnar sem eftir eru greiða einungis um 3-4% hærra verð en meðalverð.
Hvað verð á síld í bræðslu varðar greiða fimm útgerðir lægra verð en meðalverð en tvær útgerðir hærra og er Vinnslustöðin hf. ein þeirra sem greiðir lægra verð eða rétt um 7% lægra en meðalverð.
Við ákvörðun á verði verður að líta til þess sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998. Samkvæmt fyrirmælum laganna verður því að liggja fyrir með skýrum hætti að tekið sé tillit til þeirra lagafyrirmæla við mat Verðlagsstofnunar á því hvort verð víki verulega frá því sem algengast er. Í skýringum Verðlagsstofu er fyrst og fremst vísað til tölulegra gagna, en ekki gerð grein fyrir því með nákvæmari hætti með hvaða hætti er tekið tillit til stærðar og gæða t.d. Verðlagsstofa vísar með almennum hætti í bréfi sínu frá 20. nóvember sl. til þeirra atriða sem litið er til við mat stofnunarinnar en ekki hvernig það hafi sérstaklega áhrif á mat í þessu máli.
Í ljósi þess að nokkur bót hefur verið gerð á upplýsingagjöf útgerða um verð á uppsjávarafla, með sérstöku samkomulagi eftir gerð síðustu kjarasamninga um fyrirkomulag upplýsingagjafar, verður að gera ríkari kröfur til þess að gerð sé skýrar grein fyrir forsendum mats Verðlagsstofu, til þess að hægt sé að komast að niðurstöðu um að verð tiltekinna útgerða víki í verulegum atriðum frá því sem algengast er.
Sérstaklega er bent á að skv. tölulegum upplýsingum frá Verðlagsstofu greiða þrjár útgerðir af sjö lægra verð en meðalverð fyrir síld til vinnslu. Verðlagsstofa hefur vísað málum tveggja útgerða til úrskurðarnefndar (sjá einnig mál nr. Ú1/2017) en ekki er hægt að sjá með skýrum hætti hvernig skýringar þriðja útgerðin hefur sett fram til þess að mat stofnunarinnar sé þannig að fullnægjandi skýringar hafi komið fram. Þó mál þeirrar útgerðar sé ekki hér til afgreiðslu verður að líta svo á að þegar frekari skýringar liggja ekki fyrir á forsendum matsins þá valdi það ákveðnum vafa. Það, ásamt því að það er enn minni munur á tölum varðandi verð útgerða þegar kemur að verði á síld í bræðslu dregur nokkuð úr því að mat á þeim verulega mun sem vísað er til í lögum sé gegnsætt. Með hliðsjón af ofangreindu og eins og málið hefur verið lagt fyrir úrskurðarnefndina verður ekki fallist á mat Verðlagsstofu um að verð hjá Vinnslustöðinni hf. hafi í verulegum atriðum vikið frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, sérstaklega ekki þegar litið er til verðs á síld í bræðslu og þó verð á síld til vinnslu sé lægra en meðalverð verður, með hliðsjón af þeim litla mun sem er á verði hjá fimm útgerðum ekki heldur lagt til grundvallar að skilyrði 1. mgr. 7. gr. séu uppfyllt. Ítrekað er að niðurstaða nefndarinnar tekur mið af þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir hana.
Úrskurðarorð
Ekki er fallist á sýnt sé fram á að verð Vinnslustöðvarinnar hf. á síld víki verulega frá því sem algengast er skv. 7. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
Þóra Hallgrímsdóttir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Jón Kr. Sverrisson
Sveinn Hjörtur Hjartarson