Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2003

Árið 2003, þriðjudaginn 25. febrúar er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landssambands ísl. útvegsmanna að Borgartúni 35 í Reykjavík.

Mættir eru, Helgi Laxdal og Hólmgeir Jónsson og Árni Bjarnason frá samtökum vélstjóra og sjómanna, en Friðrik J. Arngrímsson, Stefán Friðriksson og Sveinn H. Hjartarson mæta af hálfu LÍÚ. Formaður nefndarinnar Skúli J. Pálmason er einnig mættur.

Fyrir er tekið mál nr. U-1/2003

Landssamband ísl útvegsmanna

f.h. Vísis hf. í Grindavík v/ fiskiskipa félagsins

gegn

Sjómannasambandi Íslands, Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands og

Vélstjórasfélagi Íslands v/ áhafna skipa Vísis hf.

I.

Landssamband ísl. útvegsmanna (LÍÚ) vísaði til úrskurðarnefndar ágreiningi um fiskverð til áhafna fiskiskipa, sem Vísir hf. gerir út með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs, sem dagsett er 14. þessa mánaðar. Bréfið er svohljóðandi: Fyrir hönd Vísis hf. í Grindavík er fiskverðssamningi við áhafnir eftirfarandi báta, sem félagið gerir út vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna: Sævík GK-257, Fjölnir ÍS-7, Freyr GK-157, Garðey SF-22, Hrugnir GK-50, Páll Jónsson GK-7 og Sighvatur GK-57. Meðfylgjandi er tillaga félagsins að nýjum fiskverðssamningi milli áhafna ofangreindra skipa og útgerðarinnar, eldri samningur og tilboð áhafnar.

Fulltrúar hagsmunaaðila ákváðu á símafundi, sem einnig var haldinn 14. þessa mánaðar, að tilkveðja formann nefndarinnar og leiða málið til lykta með úrskurði á fundi, sem haldinn yrði í dag.

Fulltrúar LÍÚ skiluðu greinargerð til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) 18. febrúar sl. en fulltrúar sjómanna 20. þessa mánaðar. Í máli þessu verður eftirleiðis vísað til fulltrúa LÍÚ sem sóknaraðila en til fulltrúa sjómanna sem varnaraðila.

II.

Í síðast gildandi samningum milli Vísis hf. og áhafna framangreindra fiskiskipa var eingöngu samið um verð á slægðum þorski. Efni samningsins var svohljóðandi:

Þorskur 1-1,8 kg. kr./kg. 108
þorskur 1,8 -2,6 kg. - 118
þorskur 2,6-3,8 kg. - 135
þorskur 3,8-6 kg. - 153
þorskur 6-8,5 kg. - 175
þorskur 8,5 kg. og yfir - 184


Miðað var við, að fiskurinn væri ísaður, vel þveginn og raðaður í kör.

Annar afli: Seldur á fiskmarkaði eða 100% markaðstenging þar með talinn undirmálsþorskur og hrogn.

Í aðdraganda þessa máls bauð Vísir hf. áhöfnum skipa sinn að gera fiskverðs-samninga, þegar fiskur væri tekinn í eigin vinnslu. sem voru svohljóðandi:

Þorskur:
Undirmál kr./kg. 90
1-1,8 kg. - 100
1,8 -2,6 kg. - 105
2,6-3,8 kg. - 120
3,8-6 kg. - 135
6-8,5 kg. - 160
8,5 kg. og yfir - 170

Ýsa:
   
Undirmál - 70
undir1,2 kg. - 100
1,2-1,4 kg. - 115
1,4-1,6 kg. - 130
1,6-2 kg. - 135
2 kg. og yfir - 140

Keila:
   
Undir 1 kg. - 60
1-1,3 kg. - 70
1,3 kg. og yfir - 80

Langa:
   
Undir 2 kg. - 80
2-5 kg. - 110
5 kg. og yfir - 120

Steinbítur/Hlýri: allar stærðir
- 80

Gildistími skyldi vera frá 1. febrúar sl. og þar til annað yrði ákveðið, en samningur uppsegjanlegur með 15 daga fyrirvara miðað við næstu mánaðamót á eftir uppsögn.

III.

Kröfur og rökstuðningur sóknaraðila.

Kröfur sóknaraðila fyrir úrskurðarnefndinni eru eftirfarandi:

Slægður þorskur kr./kg Óslægður þorskur kr./kg
Undirmál 81 Undirmál 68
1- 1,8 kg. 95   80
1,8-2,6 - 108   91
2,6-3,8 - 122   103
3,8-6 - 138   116
6-8,5 - 158   133
8,5 og yfir 170   143
Slægð ýsa kr./kg. Karfi kr./kg.
Undirmál 58 undir 350 gr. 35
1-1,2 kg. 84 350-500 - 38
1,2-1,4 95 500-700 - 48
1,4-1,6 - 107 700-1000 - 56
1,6-2,0 - 113 1000 og yfir 60
2,0 kg og yfir 121 72 5 kg. og yfir 108
Slægð keila. kr./kg. Slægð langa kr./kg.
Undir 1 kg. 54 undir 2 kg. 72
1-1,3 63 2-5 kg. 99
1,3 kg. og yfir 72 5 kg. og yfir 108

Slægður steinbítur.
Slægður steinbítur veiddur norðan línu, sem dregin er suðvestur úr Malarrifi og sunnan línu, sem dregin er norður úr Horni; allar stærðir 74 kr./kg. Slægður steinbítur veiddur á öðrum svæðum; allar stærðir 95 kr./kg. Annar afli verði seldur á fiskmarkaði eða að um hann gildi full markaðstenging, þ.m.t. þorskhrogn. Ráðstöfun lifrar skal vera óbreytt. Eftir blóðgun, aðgerð og þvott skal öllum fiski raðað í kör með kviðinn niður. Gildistími skal vera frá 14.2.2003 til 14.5.2003

Rökstuðningur sóknaraðila:

Þorskur, ýsa og karfi.
Með úrskurði gerðardóms, sem byggður var á lögum nr. 34/2001, var ákveðið að miða við það markmið á gildistíma hans, að meðalverð á slægðum og óslægðum þorski, slægðri og óslægðri ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila nálgist vegið meðaltal fiskverðs á innlendum fiskmörkuðum og verðs á fiski, sem ráðstafað sé í beinum viðskiptum, þannig að hlutfall verðs í beinum viðskiptum af vegnu meðalverði í beinum viðskiptum og vegnu meðalverði á fiskmörkuðum verði ekki lægra á viðmiðunartímanum en þau hlutföll, sem skilgreind eru í gerðardóminum. Verðlagsstofa skiptaverðs skal setja fram lýsingu á sambandi milli þyngdar á fiski og verðs á hvert kíló og skal það haft til hliðsjónar, svo að náð verði þeim samningsmarkmiðum, sem lýst er í gerðardómnum. Um sömu markmið er að ræða og í kjarasamningi LÍÚ og VSFÍ.

Verðlagsstofa hefur útfært fiskverð í beinum viðskiptum í samræmi við ákvæði gerðardómsins og hefur það verið lagt til grundvallar í samningum milli útgerða og áhafna íslenskra fiskiskipa. Nú liggi fyrir, að verð á slægðum og óslægðum þorski, slægðri ýsu og karfa sé hærra en forsendur séu fyrir samkvæmt þeim markmiðum, sem skilgreind séu í úrskurði gerðardómsins og samningi LÍÚ og VSFÍ, eins og glögglega komi fram í meðfylgjandi gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs. Krafa fulltrúa útvegsmanna miðist við, að verð á slægðum og óslægðum þorski lækki um 11%, verð á slægðri ýsu lækki um 20% og verð á karfa lækki um 11% Keila, langa og steinbítur.

Um aðrar tegundir en þorsk, ýsu og karfa fari, samkvæmt 11. grein laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs.

Vísir hf. sé að því leyti sérstakt sjávarútvegsfyrirtæki, að félagið hafi starfsemi í öllum landshlutum og skip þess og skyldra aðila veiði allt í kringum landið og landi afla víða. Félagið stundi einnig miðlun á afla milli fiskvinnslna, sem það reki eða taki þátt í að reka. Þar sem verð á keilu og löngu sé nokkuð sambærilegt milli landshluta sé, eins og hér standi sérstaklega á, ekki gerð krafa um, að mismunandi verð gildi eftir svæðum. Varðandi kröfur um verðlagningu á steinbít gildi öðru máli, en ástand og stærð steinbíts sé afar mismunandi eftir svæðum. Því sé gerð krafa um, að steinbítur verði verðlagður í tvennu lagi.

Um verðlagningu á öllum framangreindum fisktegundum eigi það við, að veruleg styrking krónunnar hafi leitt til lækkunar á afurðaverði, sbr. meðfylgjandi upplýsingar um vísitölur sjávarafurða frá Hagsstofu Íslands. Samkvæmt þeim hefur afurðaverðsvísitala þorsks í íslenskum krónum lækkað á bilinu um 11% til 12,7% frá janúar 2002 til desember 2002 . Afurðaverðsvísitala ýsu hefur á sama tíma lækkað um 17,5 % og afurðaverðsvísitala karfa um 11%. Afurðaverð á keilu og löngu og steinbít hafi einnig lækkað. Verð á steinbít í beinum viðskiptum á Vestfjörðum og Vesturlandi hafi á síðasta ári verið 81,91 kr/kg en allur aflinn, að undanskildum 2 tonnum, hafi komið á land í janúar til apríl. Frá þeim tíma hafi gengi íslensku krónunnar styrkst um rúm 11% og því er gerð krafa um 11% lækkun á steinbítsverði. Þó steinbítur sé að hluta veiddur á öðrum tíma á öðrum svæðum fari yfirgnæfandi hluti veiðanna fram á fyrri hluta ársins. Meðalverð á steinbít á öðrum svæðum en Vestfjörðum og Vesturlandi á síðasta ári í beinum viðskiptum hafi verið 105,26 kr/kg. Verð á löngu í beinum viðskiptum á síðasta ári hafi numið 123,25 kr./kg. en verð á keilu 81,63 kr/kg. Auk þess hafi orðið verðlækkun á saltfiski en Vísir hf. vinni stærstan hluta þorskafla skipa félagsins í salt.

IV.

Kröfur og rökstuðningur varnaraðila:

Varnaraðili krefst þess, að síðast gildandi fiskverðssamningur verði framlengdur óbreyttur, þ.e. verð á þorski verði óbreytt og undirmálsþorskur og annar afli verði seldur á fiskmarkaði eða taki 100% markaðstengingu, eins og verið hefur.

Athugasemdir við kröfur LÍÚ:
Varnaraðila þykir það sæta furðu, að LÍÚ geri kröfu um, að óslægður þorskur og karfi verði verðlagður fyrir skip Vísis hf. Í fyrsta lagi bendir varnaraðili á þá staðreynd, að allur afli, sem skipin komi með að landi sé slægður. Í öðru lagi fái línuskipin sára fáa karfa á línuna og því sé ólíklegt, að fyrirtækið taki hann til vinnslu í eigin fiskvinnslu. Öllum hugmyndum LÍÚ um verðlagningu á óslægðum þorski, karfa, keilu, löngu og steinbíti sé hafnað.

Rökstuðningur við kröfur SSÍ:

Í úrskurði gerðardóms, skv. lögum nr. 34/2001, um kjaramál sjómanna, segi, að á gildistíma úrskurðarins skuli verð á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum nálgast vegið meðaltal markaðar og beinnar sölu, þannig að hlutfall verðs í beinni sölu af vegnu meðalverði markaða og beinnar sölu verði ekki lægra en eftirfarandi hlutföll:

Þorskur, slægður 92,7% þann 1. júní 2002
93,5% þann 1. júní 2003
94,0% þann 1. desember 2003
Ýsa, slægð 73,9% þann 1. júní 2002
75,1% þann 1. júní 2003
75,9% þann 1. desember 2003
Karfi, óslægður 95,5% þann 1. júní 2002
95,7% þann 1. júní 2003
95,9% þann 1. desember 2003

Í úrskurðinum segi jafnframt: ,,Landssamband ísl. útvegsmanna skal með þátttöku sinni í úrskurðarnefnd skv. lögum nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skipta-verðs o.fl., beita sér fyrir því, ef á þarf að halda, að ofangreind markmið náist."

Varnaraðili vísar í þessu sambandi til línurits, sem fylgir greinargerð hans og skoða ber sem hluta hennar. Þar komi fram, að mati varnaraðila, hvert raunverulegt hlutfall hafi verið. Á slægðum þorski hafi hlutfallið í beinum viðskiptum verið mun lægra en stefnt skyldi að samkvæmt ákvörðun gerðardómsins, allt til 1. janúar 2003. Tölur fyrir janúar 2003 liggi ekki enn fyrir, en líklegt sé talið, að markmiðið hafi náðst þann 1. febrúar 2003 eða 7 mánuðum síðar, en gerðardómurinn mælti fyrir um. Línuritið sýni, hvernig hlutföllin muni þróast í fyrsta lagi skv. spálíkani Verðlagsstofu skiptaverðs ef gengisvísitalan verði 126 stig það sem eftir er samningstímans. Þar sé um ofmat að ræða og ljóst sé að sú, spá standist ekki, þar sem verð á þorski í beinum viðskiptum muni eitthvað lækka þó viðmiðunum VSS verði ekki breytt. Varnaraðili álíti því, að VSS ofmeti þróun hlutfallsins. Á hinn bóginn komi fram á línuritinu hver þróun verði, ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila um 11% lækkun. Þá myndi nánast strax sækja í sama farið og þorskverð færi niður fyrir þau markmið, sem stefna skuli að. Varnaraðili bendir sérstaklega á í þessu sambandi, að hlutföll gerðardóms séu lágmörk og því óheimilt að vera undir þeim.

Tólf mánaða meðalverð á slægðum þorski í beinni sölu hefði þann 1. júní 2002 þurft að vera 9,4% hærra en það varð til að markmið gerðardóms næðist. Eftir það sem á undan er gengið geti menn ekki með sanngirni vænst þess, að forystumenn sjómanna séu tilbúnir að samþykkja lækkun á fiskverði um leið eða áður en markmiðunum sé náð. Þegar búið verði að vinna upp það tap, sem sjómenn hafi orðið fyrir vegna vanefnda á markmiðum gerðardómsins munu fulltrúar sjómanna verða til viðræðu um lækkun á fiskverði, ef tilefni sé til. Jafnframt sé ætlast til þess af Verðlagsstofu skiptaverðs og útvegsmönnum, að þessir aðilar standi ekki lengur í veg fyrir því að úrskurður gerðardóms sé virtur. Öllum hugmyndum um lækkun fiskverðs sé því hafnað á þessari stundu.

Þó verð á karfa sé hér ekki til umræðu vill varnaraðili benda á, að þann 1. júní 2002 hafi vantað 11,7% á, að 12 mánaða meðalverð á karfa í beinni sölu uppfyllti markmið gerðardóms. Það hafi ekki verið fyrr en þann 1. desember síðastliðinn, sem markmið um karfann hafi náðst. Sama gildi um karfann og um þorskinn, að ekki sé tilefni til að lækka viðmiðunarverðin á þessari stundu.

V.

V.1.

Ágreiningur málsaðila, sem úrskurðarnefnd er falið að leiða til lykta, er tvíþættur og lýtur mismunandi reglum.

Hann snýr annars vegar, að verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, sem lögskipaður gerðardómur, samkvæmt lögum nr. 34/2001 var falið að mæla fyrir um, hvernig skyldu verðlagðar, og hins vegar lýtur ágreiningur málsaðila að verðlagningu fisktegunda, sem falla utan verksviðs gerðardómsins. Um ákvörðun fiskverðs þessara tegunda fer, samkvæmt II. kafla laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna.

Rétt þykir, áður en fjallað verður efnislega um ágreining málsaðila, að taka afstöðu til þeirra kröfu varnaraðila, að ekki séu efni til að fjalla um kröfu sóknaraðila um verðlagningu óslægðs þorsks og karfa.

Hér er um frávísunarkröfu að ræða, sem byggir á því, að því er varðar veiðar á karfa, að Vísir hf. stundi línuveiðar og það óverulega magn af karfa, sem komi á línuna, sé meðafli, sem félagið verki ekki sjálft. Varðandi kröfuna um verðákvörðun á óslægðum þorski, er því haldið fram af hálfu varnaraðila, að allur þorskur sé slægður um borð í skipum félagsins og því ástæðulaust að leggja fyrir úrskurðarnefnd að fjalla um þann þátt.

Samkvæmt upplýsingum VSS, sem formaður óskaði eftir um afla skipa Vísis hf. á karfa, lönduðu átta skip félagsins 322.121 kg. á fiskveiðiárinu 2001-2002, þar af landaði m/b Gerður 6,980 kg., en ekki hefur verið óskað eftir verðákvörðun úrskurðarnefndar varðandi áhöfn þess fiskiskips. VSS upplýsti á hinn bóginn, að allur afli skipa Vísis hf. væri slægður um borð í skipum félagsins, þannig að ekki væri um það að ræða, að félagið landaði óslægðum afla til vinnslu.

Því verður að telja, að Vísir hf. hafi ekki hagsmuni af því, að úrskurðarnefndin ákveði í þessu máli verð á óslægðum þorski. Í tilboði sínu til áhafna, sem rakið er undir lið II. hér að framan, var engin afstaða tekin til óslægðs þorsks. Þeirri kröfu er því vísað frá úrskurðarnefnd, enda á sóknaraðili þess ávallt kost að vísa ágreiningi, sem snertir verðlagningu óslægðs þorsks til úrskurðarnefndar. Öðru máli gegnir um kröfu sóknaraðila um verðákvörðum á karfa til áhafna skipa félagsins. Aflamagn á karfa hjá skipum félagsins, er að sönnu óverulegt miðað við heildarafla þeirra, en engu að síður verður að telja, að félagið hafi hagsmuni af því, að úrskurðarnefnd fjalli um það ágreiningsefni. Verður sú krafa því tekin til efnislegrar úrlausnar.

Einnig verður, áður en lengra er haldið, að taka afstöðu til kröfu varnaraðila, sem veit að því, að úrskurðarnefnd ákveði aðeins verð á slægðum þorski en allur annan afli fari á markað, eða taki að fullu mið af verði á fiskmörkuðum, eins og tíðkast hafi um annan afla skipa Vísis hf.

Í kjarasamningum þeim, sem málsaðilar hafa gert sín í milli, er útgerðarmanni falið í umboði áhafnar að ákveða, hvernig sölu aflans skuli háttað. Þar segir enn fremur, að útgerðarmaður skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir aflann. Bæði úrskurðarnefnd og síðar Verðlagsstofa skiptaverðs voru settar á stofn til að stuðla að því, að útgerðarmaður uppfyllti þessar samningsskyldur.

Því verður að telja, með vísan til framangreindra forsendna, að Vísir hf. geti einhliða ákveðið að kaupa afla eigin skipa og fela úrskurðarnefnd ákvörðun á verði til áhafna þeirra, þar sem samningar hafi ekki náðst þeirra í milli.

V.2.

Verður nú tekin efnisleg afstaða til krafna málsaðila og fyrst fjallað um kröfu sóknaraðila, er veit að ákvörðun á verði til áhafna skipa Vísis hf. fyrir þorsk, ýsu og karfa.

Eins og báðir málsaðilar byggja á og gera grein fyrir í greinargerðum sínum, setti lögskipaður gerðardómur fram ákveðin markmið um verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, sem málsaðilar skyldu ná á gildistíma úrskurðar gerðardómsins. Þessum markmiðum er nánar lýst í greinargerð varnaraðila. Einnig var sérstaklega lagt fyrir sóknaraðila að beita sér fyrir því í úrskurðarnefnd að settum markmiðum yrði náð, eins og einnig er getið í greinargerð varnaraðila. Í úrskurði gerðardómsins segir, að þessi aðlögun skuli gerast með jöfnum stíganda á samningstímabilinu, sem verður að skilja svo, að átt sé við gildistíma úrskurðarins.

Verðlagsstofa hefur í samráði við málsaðila gefið út viðmiðunarverð fyrir umræddar þrjár fisktegundir Í raun hefur viðmiðunarverð VSS verið það verð, sem miðað hefur verið við í beinum viðskiptum frá því úrskurður gerðardóms tók gildi. Samkvæmt upplýsingum VSS hefur viðmiðunarverð á þorski verið hækkað frá ágústmánuði 2001 um 38%, en í karfa um 35% í fjórum áföngum. Við það var miðað, að settum markmiðum yrði náð með jöfnun stíganda.

VSS hefur upplýst að settum markmið um verð fyrir karfa og ýsu hafi náðst í nóvembermánuði sl., en fyrir þorsk hafi tekist að uppfylla fyrirmæli gerðardómsins í síðasta mánuði, en nákvæmar upplýsingar liggi ekki fyrir um það.

VSS hefur áætlað líklega framvindu í verðþróun umræddra fisktegunda. Samkvæmt spá VSS um verð fyrir slægðan þorsk er verðið nú komið í jafnvægi, en stígur að óbreyttu hratt yfir viðmiðunarmörk fyrstu mánuði og síðan áfram með óverulegum stíganda, verði ekkert að gert. Verð á ýsu og karfa, sé nú komið vel yfir viðmiðunarmörk og muni halda áfram að stíga.

Því er það niðurstaða úrskurðarnefndar að lækka skuli viðmiðunarverð um 5% fyrir þorsk, ýsu og karfa.

Verð það, sem Vísir hf. skal miða uppgjör til áhafna við skal vera sem hér segir:

Þorskur slægður:
Undirmál kr./kg. 86
1-1,8 kg. - 100
1,8 -2,6 kg. - 113
2,6-3,8 kg. - 129
3,8-6 kg. - 145
6-8,5 kg. - 168
8,5 kg. og yfir - 180

Ýsa slægð:
   
Undirmál - 82
undir1,2 kg. - 96
1,2-1,4 kg. - 108
1,4-1,6 kg. - 122
1,6-2 kg. - 129
2 kg. og yfir - 142

Karfi:
   
Undir 350 gr. - 35
350-500 gr. - 45
500-700 gr. - 51,35
700-1000 - 59,85
1000 gr. og yfir - 71

VI.

Nú verður tekin ákvörðun um verð á keilu, löngu og steinbít til áhafna við-komandi skipa Vísis hf..

Við þá ákvörðun ber að fara eftir 11. gr. laga nr. 13/1998, eins og áður er getið. Í 1. mgr. 11. gr. segir, að úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af upp-lýsingum, sem VSS hafi safnað, en samkvæmt 12. gr. laganna er m.a. lagt fyrir úrskurðarnefnd að leita upplýsinga hjá útgerð og áhöfn.

a) Verðákvörðun á keilu:
Samkvæmt upplýsingum, sem VSS hefur veitt úrskurðarnefnd var meðalverð fyrir keilu árið 2002 82 kr/kg. Verðlækkun frá meðalverði seinasta árs sé um 12%.

Vísir hf. gerði áhöfnum sínum tilboð í umræddar þrjár fisktegundir og áhafnir gerðu félaginu gagntilboð í keilu og löngu. Einnig liggur fyrir krafa sóknaraðila, sbr. kafla III. hér að framan.

Það verð, sem tekist er á um í þessu tilliti eru sem hér segir: (kr/kg.)

  Útgerð Áhöfn LÍU
1. kg. 60 70 54
1-1,3 kg 70 80 63
1,3 kg.+ 80 80 72

Úrskurðarnefnd telur rétt að ákveða verð fyrir keilu þannig:
1 kg. 63 kr/kg., 1 kg -1,3 kg. 73 kr/kg., 1,3 kg. og yfir 80 kr/kg.

b) Verðákvörðun á löngu:
Samkvæmt upplýsingum VSS var meðalverð fyrir löngu árið 2002 127 kr/kg. Verðlækkun frá meðalverði seinasta árs sé um 12%. Verð á mörkuðum sé í dag lágt að mati VSS.

  Útgerð Áhöfn LÍU
Undir 2 kg. 80 120 72
2-5 kg. 110 120 99
Yfir 5 kg. 120 120 108

Úrskurðarnefnd telur rétt að ákveða verð fyrir löngu þannig:
Undir 2 kg 92 kr/kg., 2-5 kg. 115 kr/kg., yfir 5 kg. 120 kr/kg.

c) Verðákvörðun á steinbít
Samkvæmt upplýsingum VSS var meðalverð á steinbít við Vestfirði á síðasta ári 82 kr/kg. en á öðrum landsvæðum 105 kr/kg. Verðlækkun steinbít sé einnig 12% frá meðalverði síðasta árs. Útgerð bauð áhöfnum 80 kr/kg. en áhöfn gerði kröfu til þess að steinbítur yrði settur á markað. Krafa sóknaraðila (LÍÚ) var fyrir Vestfirði 74 kr/kg. en á öðrum landsvæðum 95 kr/kg.

Með hliðsjón af þróun á verði steinbíts þykir rétt að ákveða verð til áhafna skipa Vísis hf. þannig, að verð á Vestfjörðum skuli vera 76 kr/kg. en 96 kr/kg. á öðrum landsvæðum.

Úrskurður þessi skalgilda til 15. mars n.k.

Úrskurðarorð

Verð það, sem Vísir hf. skal miða uppgjör til áhafna við skal vera sem hér segir:

Þorskur slægður:  
Undirmál kr./kg. 86
1-1,8 kg. - 100
1,8 -2,6 kg. - 113
2,6-3,8 kg. - 129
3,8-6 kg. - 145
6-8,5 kg. - 168
8,5 kg. og yfir - 180

Ýsa slægð:
   
Undirmál - 82
undir1,2 kg. - 96
1,2-1,4 kg. - 108
1,4-1,6 kg. - 122
1,6-2 kg. - 129
2 kg. og yfir - 142

Karfi:
   
Undir 350 gr. - 35
350-501 gr. - 45
500-701 51,35 - 51,35
700-1000 - 59,85
1000 gr. og yfir - 71

Keila: 1 kg. 63 kr/kg., 1 kg -1,3 kg. 73 kr/kg., 1,3 kg. og yfir 80 kr/kg.
Langa: Undir 2 kg 92 kr/kg., 2-5 kg. 115 kr/kg., yfir 5 kg. 120 kr/kg.
Steinbítur: Verð á Vestfjörðum skal vera 76 kr/kg., en 96 kr/kg. á öðrum landsvæðum.

Úrskurður þessi skal gilda til 15. mars n.k.

Skúli J. Pálmason
Friðrik J. Arngrímsson
Stefán Friðriksson
Sveinn Hj. Hjartarson