Fara í efni

Úrskurður nr. 1/2021

Sunnudaginn 14. mars 2021 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.

Fyrir er tekið mál nr. Ú1/2021:

Sjómannasamband Íslands vegna áhafnar Múlabergs SI-22

gegn

Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi vegna útgerðarinnar Ramma hf. vegna Múlabergs SI-22.

Gögn málsins:

  1. Tilboð útgerðar til áhafnar Múlabergs SI-22 um rækjuverð, dags. 9. febrúar 2021
  2. Vísun SFS á samningi um rækjuverð til úrskurðarnefndar, dags. 19. febrúar 2021
  3. Fundargerð fundar í úrskurðarnefnd, dags. 23. febrúar 2021
  4. Tölvupóstur frá SFS – rekstrarniðurstaða útgerðar 2013-2020 og uppgjör á einfrystri rækju 2019, dags. 24. febrúar 2021
  5. Tölvupóstur frá SFS – kynning, póstsamskipti útgerðar og sölunótur, dags. 24. febrúar 2021
  6. Fundargerð fundar í úrskurðarnefnd, dags. 2. mars 2021
  7. Tilboð fulltrúa sjómanna frá 2. mars 2021
  8. Tölvupóstur frá SFS – samantekt á einfrystri rækju 2019-2020, dags. 4. mars 2021
  9. Fundargerð fundar í úrskurðarnefnd, dags. 5. mars 2021
  10. Máli vísað í fullskipaða nefnd, dags. 5. mars 2021
  11. Beiðni frá SSÍ um sölureikninga frá útgerð og frá Tollstjóra frá september 2020 og samskipti um þá beiðni, dags. 8. mars 2021
  12. Gögn frá Tollstjóra um rækjuútflutning útgerðar 2020, dags. 8. mars 2021
  13. Beiðni frá Verðlagsstofu til útgerðar um sölureikninga, dags. 8. mars 2021
  14. Sölureikningar útgerðar, dags. 8. mars 2021
  15. Samskipti útgerðar og Verðlagsstofu vegna sölureikninga, dags. 9.-10. mars 2021
  16. Greinargerð fulltrúa sjómanna, dags. 10. mars 2021
  17. Greinargerð SFS og fylgiskjöl, dags. 10. mars 2021
  18. Athugasemdir fulltrúa sjómanna við greinargerð SFS, dags. 11. mars 2021
  19. Athugasemdir SFS við greinargerð fulltrúa sjómanna og fylgiskjöl, dags. 11. mars 2021

Atvik og sjónarmið aðila:

Ágreiningur máls þessa snýr að því hvaða verð fyrir rækju skuli nota við uppgjör á aflahlut áhafnar Múlabergs SI. Ágreiningur var milli sömu aðila um verð fyrir rækju sem endaði með úrskurði fullskipaðrar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, sbr. úrskurð nefndarinnar í málinu nr. Ú2/2020.

Svo sem þar er rakið greiddi Rammi hf. til áhafnar Múlabergs SI frá apríl 2019 skv. eftirfarandi töflu:

Stærð–stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 150 2,80
151-200 2,61
201-290 2,18
Yfir 291 0,82

Þegar Múlaberg SI hóf rækjuveiðar aftur í mars 2020 eftir 6 mánuði við veiðar með botnvörpu þá lagði Rammi hf. eftirfarandi verðtöflu fram:

Stærð–stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 150 2,25
151-200 2,15
201-250 2,00
251-350 1,75
301-350 1,55
351-400 1,35
401-500 1,00
Yfir 501 0,73

Af samanburði við verðtöflu frá apríl 2019 má sjá að um þó nokkra lækkun er að ræða enda er seinni taflan dags. 22. mars 2020. Á þeim tímapunkti hafði heimsfaraldur Covid-19 breiðst hratt út og haft veruleg áhrif m.a. í Bretlandi sem er helsti útflutningsmarkaður íslenskrar rækju.

Þann 14. maí 2020 skrifuðu skipstjóri Múlabergs SI-22 og fyrirsvarsmaður Ramma hf. undir rækjuverðssamkomulag milli Ramma hf. og Múlabergs SI-12. Þar var samið um eftirfarandi verð eftir stærð:

Stærð–stk. í kg. Kg.verð í br. pundum
Að 170 1,53
171-210 1,44
211-290 1,38
291-350 1,12
351-500 0,94
Yfir 501 0,73

Þann 12. júlí 2020 sagði áhöfn Múlabergs SI-22 upp samningnum. Viðræður milli áhafnar og útgerðar leiddu ekki til samnings. Málinu var vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna og lauk með úrskurði í málinu nr. Ú2/2020 þar sem miðað var við eftirfarandi verðtöflu:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 2,25
151-200 2,15
201-250 2,00
251-300 1,75
301-350 1,55
351-400 1,35
401-500 1,00
501 og yfir 0,60

Verðin skyldu gilda frá og með 29. september 2020 til og með 1. desember 2020.

Í greinargerð fulltrúa útgerðar kemur fram að í febrúar 2021 hafi forsvarsmaður Ramma hf. kynnt horfur á rækjumarkaði fyrir áhöfn og hafi verið rætt við áhöfn um drög að verðsamningi. Í drögunum kemur fram tilboð Ramma hf. til áhafnar Múlabergs SI-22 í rækju, dagsett 9. febrúar 2021:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,78
151-200 1,70
201-300 1,55
301-400 1,40
401-500 1,00
Yfir 500 0,50

Þann 16. febrúar 2021 hafnaði áhöfn Múlabergs SI-22 verðsamningnum í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Með vísan til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 vísuðu fulltrúar SFS málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þann 19. febrúar 2021 þar sem ekki tókust samningar um rækjuverð milli áhafnar og útgerðar Múlabergs SI-22.

Fulltrúar sjómanna og útgerðar funduðu alls þrisvar, þ.e. 23. febrúar, 2. og 6. mars 2021, þar sem nánar voru til umræðu gögn sem stafa frá Ramma varðandi rekstur rækjuvinnslu og hráefnishlutföll, ásamt upplýsingum um nýlegar sölur og verð á rækju. Einnig lögðu fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd fram tilboð á fundinum, þann 2. mars. Á fundi þann 6. mars varð ljóst að vísa þyrfti málinu til fullskipaðrar nefndar þar sem ekki hafði náðst samkomulag milli fulltrúa sjómanna og útgerðar í nefndinni.

Fulltrúar sjómanna óskuðu eftir því við Verðlagsstofu að aflað yrði sölureikninga Ramma hf. fyrir tímabilið 1. september 2020 til 8. mars 2021. Rammi hf. sendi sendi Verðlagsstofu 12 reikninga. Af gögnum frá frá Tollstjóra má hins vegar sjá að sölureikningar Ramma hf. á tímabilinu hafi verið 23. Verðlagsstofa óskaði skýringa frá Ramma hf. á þessu misræmi. Skýringar bárust með tölvupósti, dags. 9. mars 2021, en reikningarnir fylgdu ekki með. Verður að telja bagalegt að ekki sé brugðist við fyrirspurnum með því að senda tæmandi gögn eða a.m.k. senda strax upplýsingar um að gögn vanti og hverjar skýringarnar kunni að vera.

Deiluaðilar skiluðu greinargerðum þann 10. mars 2021. Athugasemdir aðila bárust svo með tölvupóstum þann 11. mars 2021.

Formaður úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna átti í viðræðum við aðila málsins og viðraði leiðir til að sætta ágreining aðila. Svo fór að fulltrúar sjómanna féllust á að mæta kröfum fulltrúa SFS á miðri leið með eftirfarandi verðtöflu:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,90
151-200 1,82
201-300 1,68
301-400 1,49
401-500 1,00
Yfir 500 0,50

Fulltrúar SFS féllust ekki á slíka nálgun. Í kjölfarið sendi formaður úrskurðarnefndar tölvupóst, dags. 13. mars 2021, á nefndarmeðlimi og tók fram að formaður liti svo á að í framangreindri töflu fælist því varakrafa fulltrúa sjómanna.

Kröfur og málsástæður fulltrúa sjómanna:

Krafa fulltrúa sjómanna kemur fram í tilboði, dags. 2. mars 2021. Þess er krafist að eftirfarandi verð gildi frá 1. mars til 31. mars 2021:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 2,03
151 - 200 1,94
201 - 250 1,80
251 - 300 1,58
301 - 400 1,40
401 - 500 1,00
Yfir 500 0,50

Fram kemur í greinargerð sjómanna að tilboð þeirra byggi á 10% lækkun frá úrskurði í málinu nr. Ú2/2020. Vísað er til þess úrskurðar, tilboðs sjómanna og greinargerðar í því máli, dags. 23. október 2020 og þeirra gagna sem lágu til grundvallar úrskurðinum.

Tekið er fram að fulltrúar sjómanna hafi óskað eftir því við Verðlagsstofu að aflað yrði sölureikninga Ramma hf. fyrir tímabilið 1. september 2020 til 8. mars 2021. Rammi hf. hafi einungis sent 12 af þeim 23 sem eru í skjali frá Tollstjóra fyrir sama tímabil. Í ljós hafi komið að Rammi hf. hafi ekki sent 11 reikninga fyrir þetta tímabil að tollverðmæti 52.809.168 kr. og að meðaltollverð þeirra reikninga sem vantaði hafi verið 7,1% hærra en þeirra sem sendir voru inn. Þá hafi meðal reikningsverð þeirra reikninga sem vantar verið 6,3% hærra en þeirra sem sendir voru inn.

Fulltrúar sjómanna benda á verðþróun samkvæmt reikningum Ramma hf. annarsvegar og Undercurrentnews hinsvegar. Þeir benda á þá reikninga sem liggja fyrir frá Ramma hf. þar sem vegið meðalverð fyrir 100-200/kg. flokkinn er 7,39 GBP árið 2020 en sé 7,00 GBP á reikningum frá 27. janúar 2021 og 17. febrúar 2021, sem sé 5,2% lægra en meðalverð 2020. Til samanburðar sé nýjasta verð frá Íslandi frá 2. mars 2021 til Bretlands 8,00 GBP fyrir þennan flokk. Með sama hætti sé lækkun á flokki 250-350 6,7% frá meðalverði ársins 2020 á reikningi frá 27. janúar 2021, en að lækkunin sé 1% skv. Undercurrentnews.

Tekið er fram að samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Undercurrentnews yfir innflutningsverð á rækju frá Íslandi til Bretlands hækkuðu verð á öllum stærðarflokkum frá ágúst 2020 til september 2020 og hafa verið óbreytt síðan.

Fulltrúar sjómanna taka fram varðandi gögn úr rekstri landvinnslu Ramma hf. að útilokað sé fyrir þá að sannreyna að þessar upplýsingar séu réttar með samanburði við t.d. endurskoðaða ársreikninga fyrirtækisins. Bent er á að hráefniskostnaður sé stærsti kostnaðarliður í rækjuvinnslu en í rekstrinum eru fjölmargir aðrir þættir sem ráða endanlegri niðurstöðu. Bent er á að a) Hagnaður hafi verið árið 2013 með hráefnishlutfall 68%, hagnaður er árið 2018 með 72% hráefnishlutfall, b) að meðaltal áranna 2013-2020 sé hráefnishlutfall 71% og tap minnkar í 9,3% af tapi ársins 2020, c) að ef árinu 2020 er sleppt og tekið meðaltal 7 ára frá 2013-2019 snýst afkoman í hagnað, en hráefnishlutfall er 71,4%. d) Útilokað sé að fullyrða að reksturinn standi og falli með að hráefnishlutfall sé 67% eða lægra.

Fulltrúar sjómanna taka fram að samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hafi FOB meðalverð ársins 2020 verið 6,76 pund/kg. Meðalverð janúarmánaðar 2021 sé 5,99 pund/kg. eða 11,4% lægra en meðaltal ársins 2020. Tekið er fram að fulltrúar sjómanna hafi viljað leggja sitt af mörkum og freista þess að ná samkomulagi við útgerðarmenn um verð á rækju og hafi því lagt fram tilboð með 10% lækkun frá úrskurði Ú2/2020. Tekið er fram að fulltrúar sjómanna telji 11,4% lækkun janúarmánaðar endurspegli ekki endilega verð næstu mánaða og vísa því til samanburðar til gagna frá Undercurrentnews.

Kröfur og málsástæður SFS:

Krafa fulltrúa SFS kemur fram í greinargerð SFS, dags. 10. mars 2021 og er sú sama og kom fram í tilboði Ramma hf. til áhafnar Múlabergs SI-22, dags. 9. febrúar 2021. Gerð er sú krafa í máli þessu að verð fyrir rækju til áhafnar Múlabergs SI-22 verði ákvarðað með eftirfarandi hætti:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 1,78
151 - 200 1,70
201 - 300 1,55
301 - 400 1,40
401 - 500 1,00
Yfir 500 0,50

 

Fulltrúar SFS byggja á því að orðalag 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 sé ótvírætt og að ekki verði undan því vikist. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að ákvörðun fiskverðs með tilliti til meðalverða hljóti að vera grundvöllur ákvörðunar fiskverðs, sbr. orðalagið um að nefndin „skal við ákvörðun [...] taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun“. Enda komi fram í almennum athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 13/1998 að í úrskurðum nefndarinnar „skuli fylgt verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum að teknu tilliti til aðstæðna allra“. Þá segir að bætt hafi verið við að „útgerð [taki] með öðrum orðum þá áhættu að vera úrskurðuð til að fylgja því verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum ef hún fer niður fyrir lágmarksverð í uppgjöri við áhöfn“. Því beri augljóslega að miða við þau verð sem algengust eru við sambærilegar ráðstafanir og verði ekki undan því vikist. Fram kemur að sé horft síðan til 3. ml. 2. mgr. 11. gr. laganna megi ráða af orðalagi ákvæðisins, að þá skuli taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs að fenginni niðurstöðu um meðalverð. Ekki sé því unnt að ákvarða fiskverð nema meðalverð sé lagt til grundvallar áður en tekið sé tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Vísað er til úrskurðar í máli nr. 7/2000.

Í greinargerð fulltrúa SFS er vísað til þess að frá því úrskurðað var í máli nr. Ú1/2020 og þar til úrskurðað var í máli nr. Ú2/2020 hafði afurðaverð fyrir rækju skv. upplýsingum Hagstofunnar lækkað um 7,25%. Auk þess sé sýnt fram á enn frekari lækkanir og því með engu móti unnt að ætla að verð skv. þeim verðsamningum sem giltu sumarið og haustið 2020 ættu að taka breytingum til hækkunar. Fram kemur að stöðug og taktföst lækkun hafi verið á afurðaverði frá upphafi faraldurs samkvæmt útflutningsgögnum. Fulltrúar SFS árétta þá afstöðu sína til málflutnings fulltrúa sjómanna að Hagstofugögnin ósundurliðuð endurspegli ekki þróun afurðaverðs á sambærilegri ráðstöfun. Þá sé ekki hægt að sjá nein merki þess að viðsnúningur sé í kortunum, enda hafi önnur, þriðja og jafnvel fjórða bylgja COVID-19 haft gríðarleg áhrif á samkomutakmarkanir víðsvegar um Evrópu, t.d. í Bretlandi, eins og sjá má af fréttum undanfarnar vikur. Þá sé framleiðsla Ramma hf. ætluð til samlokugerðar, hótel- og veitingarekstrar sem hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna heimsfaraldursins.

Fram kemur í greinargerð fulltrúa SFS að samkvæmt því tilboði sem Rammi hf. lagði fyrir áhöfn Múlabergs var gert ráð fyrir að verð til áhafnar tæki mið af u.þ.b. 67% hráefnishlutfalli. Það verði að telja mjög hátt á alla mælikvarða. Þar sem launahlutfall á rækjuveiðunum sé að jafnaði um 41% í góðu árferði er Rammi hf., með tilboði sínu til áhafnar Múlabergs, að bjóða sjómönnum 27% af öllum tekjum fyrirtækisins af veiðum, vinnslu og sölu rækjunnar. Hingað til hafa fulltrúar sjómanna farið fram á allt að 82%-96% hráefnishlutfall, eða 35-37% af umræddum tekjum fyrirtækisins, t.d. í kröfugerð þeirra í máli nr. Ú2/2020. Svo segir að því blasi sú staðreynd við að verði kröfugerð fulltrúa sjómanna í málinu af sama meiði þá verði rækjuútgerð og vinnsla Ramma hf. í taprekstri.

Í greinargerð SFS kemur fram að í framlögðum gögnum úr fjárhagsbókhaldi rækjuvinnslu Ramma telji fulltrúar útgerðar að sýnt hafi verið fram á að hráefnishlutfall í kringum 67% sé það hráefnishlutfall sem skili engri afkomu í vinnslunni og allt umfram það leiði til fjárhagstaps í eðlilegu árferði.

Þá segir að ef skoðuð séu helstu fáanlegu gögn varðandi söluverðmæti, hvort sem það eru sölunótur beint frá Ramma hf., upplýsingar úr tollskýrslum eða hagstofugögn, sjáist að rækjuverð hafi ekki tekið við sér á mörkuðum. Þvert á móti virðist það fara lækkandi, enda tekur tilboð fulltrúa sjómanna, lagt fram á fundi úrskurðarnefndarinnar þann 2. mars. sl., mið af þeirri staðreynd.

Í greinargerð fulltrúa SFS segir að á fylgiskjali megi finna samantekt uppgjörs einfrystrar rækju af Múlabergi árin 2019 og 2020. Þar megi sjá að árið 2019 var hráefnishlutfall á grundvelli meðalverðs til áhafnar Múlabergsins tæp 74%, á meðan það var tæp 68% á árinu 2020. Á öðru fylgiskjali megi síðan finna yfirlit úr bókhaldi Ramma hf. varðandi rekstur rækjuvinnslu frá 2013 til 2020. Svo segir að glögglega megi sjá af þeim tölum að reksturinn sé í járnum og raunar um taprekstur að ræða.

Þá segir að á árinu 2020, þegar hráefnishlutfall á grundvelli meðalverðs til áhafnar Múlabergs var tæp 68%, komi fram í bókhaldi rekstrar rækjuvinnslu að kostnaðarverð seldra vara var tæp 107%. Á sama tíma er framlegð rækjuvinnslunnar neikvæð sem nemur 7,7% og taprekstur á árinu sem nemur ríflega hálfri milljón evra. Í gögnunum kemur því fram með óyggjandi hætti að tap verður á rekstri Ramma hf. fari hráefnishlutfallið umfram 67%. Fram kemur að málflutningur sjómanna grundvallist á þeim hlutfallsbreytingum sem urðu á milli uppgjörsverða árið 2019 og uppgjörsverða árið 2020. Þessi málflutningur byggir þó á þeirri forsendu að rækjuverð árið 2019 hafi ekki verið „of hátt“, en svo virðist einmitt hafa verið tilfellið. Hér er því krafa um að vísitölutryggja verð sem reynist vera of hátt.

Í greinargerðinni kemur fram að ekki megi refsa útgerðum, hafi þær svigrúm til á einhverjum tímapunkti, fyrir að greiða „of há“ verð til sjómanna , líkt og við átti árið 2019, þannig að það leiði sjálfkrafa til verri og óhagfelldra verðsamninga síðar, líkt og tilboð fulltrúa sjómanna í þessu máli gerir ráð fyrir. Skýringin á hærra verði er oft og tíðum sú, að vinnsla og sala fara ekki fram á sama tíma og markaðshorfur sem lagt er mat á við veiðar/vinnslu, reynast síðan ekki rætast þegar að sölu kemur. Á árinu 2019 töldu forsvarsmenn Ramma forsendur fyrir hækkun afurðaverðs, sem síðar reyndist ekki innstæða fyrir þar sem verð fóru lækkandi á síðari hluta ársins.

Niðurstaða:

Nokkuð ber á milli sjónarmiða þeirra hagsmunaaðila sem tilnefna fulltrúa í úrskurðarnefndina, bæði hvað varðar fjárhæðir í kröfum aðila sem og aðferðir við útreikning krafna aðila.

Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að úrskurðarnefnd skuli við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa hefur safnað. Í 2. mgr. 11. segir:

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varði ákvörðun nefndarinnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.

Fulltrúar SFS byggja á því að orðalag 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 sé ótvírætt og að af orðalagi ákvæðisins megi ráða að ákvörðun fiskverðs með tilliti til meðalverða hljóti að vera grundvöllur ákvörðunar fiskverðs, sbr. orðalagið um að nefndin „skal við ákvörðun [...] taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun“. Byggt er á því að það komi fram í almennum athugasemdum þess frumvarps sem varð að lögum nr. 13/1998 að í úrskurðum nefndarinnar „skuli fylgt verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum að teknu tilliti til aðstæðna allra“ og að „útgerð [taki] með öðrum orðum þá áhættu að vera úrskurðuð til að fylgja því verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum ef hún fer niður fyrir lágmarksverð í uppgjöri við áhöfn“. Á því er byggt að miða beri við þau verð sem algengust eru við sambærilegar ráðstafanir. Þá er byggt á því að sé horft til 3. ml. 2. mgr. 11. gr. laganna megi ráða af orðalagi ákvæðisins, að þá skuli taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs að fenginni niðurstöðu um meðalverð. Ekki sé því unnt að ákvarða fiskverð nema meðalverð sé lagt til grundvallar áður en tekið sé tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Vísað er til úrskurðar í máli nr. 7/2000.

Meiri hluti nefndarinn telur að af orðalagi 2. mgr. 11. gr. verði ekki annað ráðið en að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla og skuli í því sambandi taka mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk. Nefndin skuli einnig taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Meiri hluti nefndarinnar getur ekki fallist á það með fulltrúum SFS að skýra beri 3. ml. 2. mgr. 11. gr. á þá leið að líta eigi til líklegrar þróunar afurðaverðs að fenginni niðurstöðu um meðalverð, þ.e. að ekki sé unnt að ákvaðar fiskverð nema meðalverð sé lagt til grundvallar áður en tekið sé tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Í máli úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna nr. Ú7/2000 fór saman algengasta fiskverð á viðkomandi svæði og líkleg þróun afurðaverðs en úrskurðarnefndin skoðaði hvoru tveggja. Við mat á líklegri þróun afurðaverðs þá skoðaði úrskurðarnefndin verð á hörpudisk tvö ár aftur í tímann. Var niðurstaða nefndarinnar sú að miða við algengasta verð á viðkomandi svæði og þróun afurðaverðs. Fulltrúar SFS vísa einnig til almennra athugasemda með frumvarpi því sem varða að lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998. Lögin komu í stað laga um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 84/1995. Með lögum 13/1998 var Verðlagsstofu skiptaverðs komið á fót en ákvæði laganna um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna eru nær samhljóða ákvæðum eldri laganna, sbr. meðal annars ummæli í athugasemdum með frumvarpinu. Ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna 13/1998 eru óbreytt frá eldri lögum. Meðal breytinga sem gerð var með lögunum var skylda Verðlagsstofu til að taka til athugunar ef fiskverð við uppgjör á aflahlut áhafnar víkur í verulegum atriðum frá því sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða. Verðlagsstofa getur svo skotið máli í kjölfar slíkrar athugunar til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Framangreind ummæli í greinargerð eru í samhengi við umfjöllun um þessi nýmæli tengd athugun Verðlagsstofu.

Eins og komið hefur fram í fyrri úrskurðum nefndarinnar þar sem formaður þarf að skera úr ágreiningi, er ákvörðun nefndarinnar tekin á grundvelli heildarmats hverju sinni sem felur í sér að vega saman öll sjónarmið og allar þær upplýsingar sem liggja fyrir í einstaka máli.

Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla og skuli í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin einnig taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs samkvæmt skýru orðalagi lagaákvæðisins. Nefndinni er því við verðákvörðun skylt að líta bæði til gildandi samninga og gagna um líklega þróun afurðaverðs, sbr. meðal annars forsendur úrskurðarnefndar í málum nr. Ú1/2020 og Ú2/2020.

Fyrir nefndinni liggja engir nýir fiskverðsamningar milli útgerðar og áhafnar um verð á rækju. Þeir verðsamningar sem liggja fyrir eru frá fyrri hluta ársins 2020. Við ákvörðun fiskverðs sem nota skal við uppgjör á aflahlut í máli þessu verður því að líta til líklegrar þróunar afurðarverðs. Verður það ekki gert öðruvísi en að líta til þeirrar þróunar sem orðið hefur á afurðaverði undanfarin misseri.

Fyrir nefndinni liggja meðal annars sölureikningar Ramma hf., upplýsingar úr tollgögnum auk opinberra gagna svo sem frá Hagstofunni.

Í tilboði sjómanna felst 10% lækkun á fiskverði frá úrskurði í máli Ú2/2020. Í varakröfu felst um 15% lækkun frá úrskurðarorði máls Ú2/2020. Í úrskurðarorði í máli Ú2/2020 kom fram allt að 20% lækkun frá verðtöflu áhafnar og útgerðar frá árinu 2019 en lækkunin í stærstu flokkunum nam 19,6% og 17,6%.

Fulltrúar sjómanna viðurkenna þar með að lækkun hefur orðið á afurðaverði rækju frá árinu 2019. Krafa fulltrúa SFS byggir hins vegar á svo til sömu kröfu og í máli Ú2/2020. Málatilbúnaður fulltrúa sjómanna gengur út á að ef hlutur sjómanna á að fara eftir afurðaverði þá þurfi að skoða þróun afurðaverðs og að sjómenn taki á sig sömu hlutfallslegu lækkun eða hækkun sem verður á afurðaverði.

Þegar horft er til þróunar afurðaverðs þá má sjá að afurðaverð hefur lækkað frá því að heimsfaraldur Covid 19 skall á. Hins vegar verður ekki séð af reikningum Ramma hf. að afurðaverð hafi haldið áfram að lækka frá haustinu 2020. Ef líta á til líklegrar þróunar afurðaverðs þá liggja engin gögn eða upplýsingar fyrir um að lækkun rækjuverðs sé eða muni verða meiri en sem nemur þeirri lækkun sem kemur fram í aðalkröfu fulltrúa sjómanna. Fulltrúar sjómanna hafa þegar lækkað kröfu sína um 10% frá úrskurðarorði í málinu nr. Ú2/2020. Ekki verður séð að líkleg þróun afurðaverðs gefi til kynna að lækkun á verði rækjuafurða sé meiri en sem nemur þeirri 10% lækkun sem felst í tilboði fulltrúa sjómanna. Af þeim sölureikningum Ramma hf. sem liggja fyrir frá árinu 2021 verður ekki séð að um frekari lækkun hafi verið að ræða.

Fulltrúar SFS hafa haldið því fram að hráefnishlutfall umfram 67% þýði tap á framleiðslunni og er því stuðst við það hlutfall við útreikning á tilboði Ramma hf. Fulltrúar SFS haf lagt fram umfangsmikil gögn úr rekstri Ramma hf. sem eiga að sýna fram á að ef hráefnishlutfall fer fram yfir 67% að þá verði tap á rekstri rækjuvinnslu. Ljóst er af gögnunum að hráefnishlutfall hefur verið breytilegt milli ára. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að 67% hráefnishlutfall sé skurðpunkturinn varðandi það hvort tap eða hagnaður verði af rækjuvinnslu Ramma hf. enda koma margir þættir inn í rekstur vinnslu þó vissulega séu hráefniskaup stór þáttur. Þá verður ekki séð að 2. mgr. 11. gr. geri ráð fyrir að horft sé til slíkra upplýsinga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi að lögum 13/1998 segir þó að nefndin skuli fylgja verði sem algengast er í hliðstæðum viðskiptum að teknu tilliti til aðstæðna allra.

Verður því að fallast á með sjómönnum að líkleg þróun afurðaverðs sé í samræmi við aðalkröfu sjómanna.

Með vísan til ofangreindra röksemda er niðurstaða meirihluta nefndarinnar að horfa þurfi til 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. og verður að telja að líkleg þróun afurðaverðs í skilningi 2. mgr. 11. gr. sé það felst í kröfu fulltrúa sjómanna.

Fulltrúar sjómanna gera þá kröfu að úrskurðurinn gildi frá 1. mars til 31. mars 2021. Á það verður fallist enda ekki mótmælt af hálfu fulltrúa SFS.

Úrskurðarorð

Rækjuverð skal vera með eftirfarandi hætti frá útgerðinni Ramma ehf. til áhafnar Múlabergs SI-22:

Fjöldi/kg Verð GBP/kg
Undir 150 2,03
151 - 200 1,94
201 - 250 1,80
251 - 300 1,58
301 - 400 1,40
401 - 500 1,00
Yfir 500 0,50

Verð skal gilda frá 1. mars 2021 til og með 31. mars 2021 og er sett fram í breskum pundum miðað við kg. og fjöldatölur.

Hildur Ýr Viðarsdóttir
Árni Bjarnason
Valmundur Valmundsson
Guðmundur Helgi Þórarinsson
Árni Sverrisson