Fara í efni

Úrskurður nr. 2/1998

Árið 1998, fimmtudaginn 22. október er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Helgi Laxdal, Benedikt Valsson, Kristján Ragnarsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson, Pétur H. Pálsson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr.2/1998

Vélstjórafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands og

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands

fh. áhafnar

Fróða ÁR-133

gegn

Árnes hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Hólmgeir Jónsson f.h. Sjómannasambands Íslands vísaði málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna með bréfi dags. 29. september 1998, sem hljóðar svo: "Hér með er óskað eftir því að Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna taki til úrskurðar deilu milli áhafnar Fróða ÁR-33 og Árness hf. um fiskverð. Áhöfn og útgerð hafa verið í viðræðum að undanförnu um nýjan fiskverðssamning milli aðila. Krafa áhafnar er á fylgiblaði nr. 1. Síðasta tilboð útgerðar er á fylgiblaði nr. 2 og hafa skipverjar hafnað því tilboði. Fylgiblað nr. 3 sýnir það fiskverð sem var í gildi á skipinu í sumar. Þar sem ekki næst samkomulag milli áhafnar og útgerðar um fiskverð fól trúnaðarmaður skipverja undirrituðum að koma málinu til Úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna til að hún geti úrskurðað um fiskverð milli aðila."

Erindið var tekið fyrir á fundi í nefndinni hinn 2. október sl. og ákveðið að kalla til formann nefndarinnar, þar sem ekki náðist samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni. Á fundi fullskipaðrar nefndar hinn 14. október lögðu fulltrúar hagsmunaraðila fram hvor sína greinargerð og skýrðu auk þess munnlega sjónarmið umbj. sinna.

Ákveðið var að fresta málinu til dagsins í dag og ljúka því með úrskurði.

Kröfur og sjónarmið áhafnar og fulltrúa hennar í úrskurðarnefnd.

Krafa fulltrúa sjómanna, sem eftirleiðis verða nefndir sóknaraðili, eru samhljóða kröfu áhafnar Fróða ÁR 33. Þær eru sem hér segir: Fyrir verð á þorski verði greiddar kr. 75 pr. kg. fyrir þorsk 2 kg. og minni. Fyrir þorsk 2 kg. til 5 kg. greiðast kr. 92 pr. kg. Fyrir þorsk 5 kg. til 8 kg. greiðast kr. 106 pr. kg. og fyrir þorsk 8 kg. og stærri greiðast kr. 122 pr. kg. Annar bolfiskur þ.e. ýsa, karfi, steinbítur og ufsi, verði verðlagður á markaði. Samþykkt er tilboð útgerðar um verð á öðrum fisktegundum.

Sóknaraðili styður kröfu sína þeim rökum, að útgerð sé skylt samkvæmt gildandi kjarasamningum milli útvegsmanna (LÍÚ) og Vélstjórafélags Íslands og heildarsamtaka sjómanna (FFSÍ og SSÍ) að tryggja skipverjum sínum hæsta gangverð alls sem aflað sé og aldrei lægra en útgerðarmaður fái fyrir sinn hlut. Þeir taki ekki þátt í útgerðarkostnaði, sbr. ákvæði 1.03 í kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands og LÍÚ.

Þessu markmiði verði best náð með því að selja allan afla á uppboðsmarkaði en þar sé verðið hæst. Þetta sjáist best á yfirliti frá Verðlagsstofu skiptaverðs/Fiskifélagi Íslands um markaðsverð á þorski fyrir svæðið Þorlákshöfn-Akranes á tímabilinu febrúar til og með júlí þessa árs. Á yfirlitinu sé magnið flokkað sem næst verðtilboði áhafnarinnar. Í meðaltalstöflunni komi fram, að aðeins 8% af þorskinum fari á lægra verði en 75 kr/kg, 11% fari á verðbilinu 75 kr/kg.til 90 kr/kg , 17% fari á verðbilinu 90 kr/kg til 105 kr/kg 23% fari á verðbilinu 105 kr/kg til 120 kr/kg og 41% fari á 120 kr/kg og þar yfir. Verð kr/kg. í hverjum magnflokki sýni greinilega, að tilboð áhafnarinnar sé lágt, þar sem það sé langt fyrir neðan verðmeðaltal þorsks á umræddu tímabili, ef hann væri verðmetinn m.v. sömu þyngd á hvern fisk og tilboð áhafnarinnar miðist við, en 41% af þorskinu fari t.d. að lágmarki á sama verði og hærra verði en áhöfnin setji upp fyrir þyngri fisk en 8 kg. en óhugsandi sé að 41% af afla skipsins, sem veiði í snurvoð, sé þyngri fiskur en 8. kg.

Þeirri fullyrðingu fulltrúa LÍÚ sé mótmælt, að samningar um fiskverð hafi tekist við áhafnir þriggja skipa í eigu Árness hf. Aðeins sé búið að semja við eina áhöfn á þessum þremur skipum.

Kröfur og sjónarmið Árness hf. og fulltrúa útgerðarmanna í úrskurðarnefnd.

Fulltrúar útvegsmanna í úrskurðarnefnd (hér eftir nefndir varnaraðili) hafna kröfum fulltrúa sjómanna um fiskverð til áhafnar Fróða ÁR 33. Vísa þeir til þess að í gildi sé fiskverðssamningur við áhafnir tveggja af þremur bátum Árness hf. þ.e. á Jóni á Hofi ÁR 62 og Hafnarröst ÁR 250, sem fylgi í ljósriti.

Í kjarasamningi útvegsmanna og sjómanna segi "Útgerðarmaður og áhöfn skulu gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selur afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að samningur öðlist gildi, skal hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar. Samningurinn skal vera í stöðluðu formi, þar sem fram komi m.a. verð einstakra tegunda, gildistími, uppsagnarákvæði o.s.frv.".

Í ljósi þessa ákvæðis sé skylt að semja um fiskverð. Útgerð og áhöfn greini fyrst of fremst á um þorskverð. Samningar hafi tekist við áhafnir tveggja skipa af þremur skipum útgerðarinnar, eins og áður segi. Það liggi því fyrir, að mikill meirihluti sjómanna, sem starfi hjá Árnesi hf. sé fylgjandi gildandi fiskverðssamning og því sé eðlilegt að mati varnaraðila að sama fiskverð gildi einnig á Fróða ÁR 62. Þessu til styrktar vísar varnaraðili til eldri úrskurðar nefndarinnar frá 2. oktober 1995, sem varðandi ágreining áhafnar Skafta við Fiskiðjuna Skagfirðing hf. Þar hafi verið deilt um ýsuverð sem fyrirtækið hafði boðið fram. Úrskurðarnefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu, að eðlilegt væri að miða við boð Fiskiðju Skagfirðings hf. enda væri það í samræmi við samkomulag við áhafnir annarra skipa í eigu útgerðarinnar og meirihluta sjómanna í starfi hjá útgerðinni.

Forsendur og niðurstaða:

Varnaraðili byggir á því, að áhafnir tveggja fiskiskipa í eigu Árness hf. hafi gert fiskverðssamninga við félagið í frjálsum samningum, sem staðfestir hafi verið í leynilegri atkvæðagreiðslu, eins og kjarasamningar mæli fyrir um. Áhöfn Fróða ÁR-133 hafi verið gefinn kostur á sams konar samningi en hafnað því. Engin rök hnígi að því, að gera samnings annars efnis við áhöfn Fróða. Það fordæmi, sem slíkt myndi skapa, hefði í för með sér að breyta yrði samningum við áhafnir hinna skipanna til samræmis.

Sóknaraðili vísar til þess til stuðnings kröfum sínum, að útgerðarmanni sé skylt að samkvæmt gildandi samningum að tryggja áhöfnum skipa sinna hæsta gangverð alls afla. Sá samningur, sem útgerð Fróða hafi boðið áhöfn skipsins þjóni ekki þessu markmiði, þar sem það fiskverð, sem þar standi til boða, sé langt frá því verði, sem hæst sé greitt á nærliggjandi fiskmörkuðum, eins og framlagt yfirlit sýni.

Álit formanns úrskurðarnefndar:

Samkvæmt 10. gr. laga um úrskurðarnefnd nr. 13/1998 gildir ákvörðun úrskurðarnefndar eingöngu gagnvart áhöfn þess skips, sem skotið hefur máli til nefndarinnar, en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa í eigu sömu útgerðar. Af þessu leiðir, að áhöfn er óbundin af samningnum, sem útgerð hefur gert við áhafnir annarra skipa sinna. Því verður að fjalla sjálfstætt um hvert einstakt tilvik fyrir sig.

Í 2. mgr. 11. gr. laganna er mælt svo fyrir, að úrskurðarnefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun afla og skuli hafa til hliðsjónar fiskverð í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Ákvæði þetta er samhljóða 2. mgr. 5. gr. eldri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995. Samningsákvæði það, sem sóknaraðili byggir á um hæsta gangverð er einnig samhljóða fyrri kjarasamningi.

Við fiskverðsákvarðanir í þeim tilvikum, þegar útgerð og fiskvinnsla er í höndum sama aðila (bein sala), hefur úrskurðarnefnd jafnan haft hliðsjón af upplýsingum frá Fiskifélagi Íslands um meðalverð viðkomandi fisktegundar í beinni sölu í þeim landshluta, þar sem útgerð starfar og einnig litið til fiskverðsamninga útgerða og áhafna, þegar þeir hafa verið tiltækir og þótt viðmiðunarhæfir. Í flestum tilvikum hefur öðrum upplýsingum ekki verið til að dreifa.

Hefur því þótt nærtækast að skýra framangreint lagaákvæði með þessum hætti.

Í beinni sölu skuldbindur útgerð sig til fyrirfram til að greiða áhöfn ákveðið umsamið verð fyrir allan afla viðkomandi skips á samningstímanum. Áhöfn er þannig veitt ákveðin verðtrygging, sem hún getur reitt sig á.

Fiskverð á fiskmörkuðum hefur frá upphafi verið mun hærra, en verð í beinni sölu. Það byggist á markaðsástæðum á hverjum stað og tíma. Magn það, sem um fiskmarkaði fer, er í flestum tilvikum mun minna en í beinni sölu og þjónar í einhverju mæli öðrum hluta markaðarins. Hátt fiskmarkaðsverð er háð framboði á hverjum tíma, sem aftur ræðst m.a. af því, hversu mikið magn fer til fiskverkenda í beinni sölu.

Samkvæmt upplýsingum Fiskifélags Íslands og Verðlagsstofu skiptaverðs, var meðalkílóverð á neðangreindum fisktegundum í mánuðunum febrúar til júlí 1998 á svæðinu frá Þorlákshöfn til Akraness sem hér segir:

Þorskur: fiskmarkaðir

  Bein sala heildarmagn heildarmagn fiskmarkaðsverð
febrúar 72,26 2.732 821 117,32
mars 71,69 3.228 1.299 107,46
apríl 73,21 5.325 1.881 100,42
maí 72,46 3.370 1.458 116,65
júní 72,3 2.148 1,43 115,65
júlí 70,75 1.242 1.141 118,94
ágúst 72,06 4.795 1.749 111

Ufsi:

 

  Bein sala heildarmagn heildarmagn fiskmarkaðsverð
febrúar 50,66 805 278 62,76
mars 47,62 329 238 62,19
apríl 44,54 539 353 58,88
maí 46,6 541 385 64,24
júní 46,88 596 426 64,49
júlí 49,15 351 646 74,62
ágúst 50,6 871 649 74,74

Karfi:

  Bein sala heildarmagn heildarmagn fiskmarkaðsverð
febrúar 35,88 883 165 86,62
mars 35,79 1.241 256 87,73
apríl 37,03 1.500 362 58,51
maí 36,7 426 202 60,96
júní 36,32 1.892 498 66,44
júlí 34,94 1.014 514 70,78
ágúst 37,76 1.893 273 73,83

Ýsa:

  Bein sala heildarmagn heildarmagn fiskmarkaðsverð
febrúar 74,45 20 529 126,68
mars 68,09 59 554 130,91
apríl 66,91 138 889 107,8
maí 67,61 65 1.127 110,52
júní 71,07 28 575 129,26
júlí 76,66 763 583 118,24
ágúst 78,25 206 679 110,01

Yfirlit þessi sýna verð á slægðum fiski með haus, en karfi er heill.

Fiskurinn er óflokkaður og sýnir ekki verðlagningu eftir þyngd.

Fyrir liggur boð frá Árnesi hf. um að semja við áhöfn Fróða ÁR-133 með sama hætti og samið hefur verið við áhafnir tveggja skipa í eigu útgerðarinnar, þ.e. skipverja á Hafnarröst ÁR-250 og Jóni á Hofi ÁR-62.

Tilboð útgerðar og fyrirliggjandi samningar hennar við hinar tvær áhafnirnar varðandi þær fisktegundir, sem deilt er um, eru sem hér segir

Þorskur, slægður: Yfir 8 kg.kr. 85 kr./kg., 5-8 kg. 75 kr./kg., 2-5 kg. 65 kr./kg., 2 kg. 60 kr./kg.

Ufsi, slægður: Yfir 5 kg. 60 kr./kg., undir 5 kg. 45 kr./kg.

Karfi heill: Yfir 1200 gr. 50 kr./kg., 700 gr.-1200 gr. 40kr./kg. undir 700 gr. 25 kr./kg.

Ýsa, slægð: Yfir 1,6 kg. 80 kr./kg., 1-1.6 kg. 65 kr./kg. undir 1 kg. 30 kr./kg.

Tilboðið miðast við að 50% ársafla ufsa og ýsu fari á markað.

Samanburður á tilboðsverði útgerðar fyrir einstakar fisktegundir og meðalverði þeirra, samkvæmt yfirliti er vandkvæðum bundinn, þar sem upplýsingar vantar um það, hvernig samsetningu afla er þar háttað.

Sýnt þykir þó, að tilboðsverð útgerðar Árness hf. sé í samræmi við það meðalverð, sem greitt hefur verið fyrir þessar fisktegundir í beinni sölu á undanförnum mánuðum.

Til hins ber að líta, að útgerðarmenn hafa með kjarasamningum skuldbundið sig til að greiða áhöfnum skipa sinna hæsta gangverð, eins og áður er lýst.

Byggi úrskurðarnefnd niðurstöðu sína ávallt á meðalverði, gæti það haft þær afleiðingar, að fiskverð í beinni sölu yrði í engu samræmi við þróun fiskverðs á uppboðsmörkuðum. Sýnt þykir að við slíka kyrrstöðu myndi samningstaða áhafna versna til muna. Útgerðarmenn ættu þess jafnan kost að hafna öllum kröfum áhafna skipa sinna í trausti þess, að úrskurðarnefnd felldi úrskurð þeim í hag með hliðsjón af meðalverði viðkomandi fisktegunda.

Því þykir rétt, með vísan til framangreindra sjónarmiða og með hliðsjón af þeim mikla verðmun á þorski á fiskmörkuðum annars vegar og í beinni sölu hins vegar, að verð á þorski skuli tengjast meðalverði á fiskmörkuðum á svæðinu frá Þorlákshöfn til Akraness um 10%. Miða skal við meðalverð í þeirri viku, sem löndun á sér stað.

Fiskverð til áhafnar skal reikna þannig:

Grunnverð x 0.9+markaðsverð x 0.1=fiskverð til áhafnar.

Tilboð útgerðar Árness hf. til áhafnar Fróða ÁR-133 um verð á ýsu, karfa og ufsa skal gilda, enda fari 50% af afla ýsu og ufsa á ársgrundvelli á fiskmarkað.

Úrskurður þessi skal gilda til 2. desember n.k.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili skal við uppgjör til sóknaraðila miða við eftirfarandi verð á neðangreindum fisktegundum:

Þorskur, slægður: Grunnverð þorsks yfir 8 kg.kr. 85 kr./kg., grunnverð þorsks 5-8 kg. 75 kr./kg., grunnverð þorsks 2-5 kg. 65 kr./kg., og grunnverð þorsks 2 kg. og þar undir 60 kr./kg., markaðstengt um 10%, m.v. meðalverði á fiskmörkuðum á svæðinu frá Þorlákshöfn til Akraness, samkvæmt þeirri útfærslu, sem sýnd er að framan.

Ufsi, slægður: Yfir 5 kg. 60 kr./kg., undir 5 kg. 45 kr./kg. og skal 50% af afla á ársgrundvelli seldur á fiskmarkaði.

Karfi heill: Yfir 1200 gr. 50 kr./kg., 700 gr.-1200 gr. 40kr./kg. undir 700 gr. 25 kr./kg.

Ýsa, slægð: Yfir 1,6 kg. 80 kr./kg., 1-1.6 kg. 65 kr./kg. undir 1 kg. 30 kr./kg., og skal 50% af afla á ársgrundvelli seldur á fiskmarkaði.

Úrskurður þessi skal gilda til 2. desember n.k.

Að úrskurði stóðu:

Skúli J. Pálmason
Kristján Ragnarsson
Pétur H Pálsson
Sveinn Hjörtur Hjartarson