Fara í efni

Úrskurður nr. 2/2005

Árið 2005, þriðjudaginn 22. nóvember er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landssambands ísl. útvegsmanna að Borgartúni 35 í Reykjavík.

Fyrir er tekið mál nr. Ú-2/2005:

Landsamband ísl. útvegsmanna (LÍÚ)
f.h. Vinnslustöðvarinnar hf.
v/ útgerðar m/b Sighvats Bjarnasonar VE-81
gegn
Sjómannasambandi Íslands,
Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og
Vélstjórafélagi Íslands
v/ áhafnar m/b Sighvats Bjarnasonar VE-81

LÍÚ vísaði málinu til úrskurðarnefndar f.h. Vinnslustöðvarinnar hf., Vestmannaeyjum vegna ágreinings um verðlagningu síldar á yfirstandandi vertíð með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs, dags. 10. þessa mánaðar.

Fjallað var um málið í úrskurðarnefnd 21. þessa mánaðar á sérstaklega boðuðum fundi. Á fundinum komu fulltrúar hagsmunaaðila sér saman um eftirfarandi:

  1. Að beitt skyldi sömu aðferð við verðlagningu síldar til áhafnar m/b Sighvats Bjarnasonar (eftirleiðis Sighvatur) og viðhöfð var í tilboði Vinnslustöðvarinnar hf. til áhafnar Sighvats en sú aðferð var lögð til grundvallar í samkomulagi milli áhafnar Gullbergs VE-292 og Vinnslustöðvarinnar hf., sem dags. er 11.nóvember sl.
  2. Að ekki sé rétt að miða verðlagningu síldar til áhafnar Sighvats við tiltekið landsvæði, sbr. 7. og 11. gr. laga nr. 13/1998, vegna eðlis síldveiða, sem ekki tengjast sérstaklega ákveðnu landsvæði.

Ekki náðist samkomulag um aðra þætti og var málinu því vísað til formanns nefndarinnar og honum falið að leiða það til lykta með úrskurði. Talsmenn hagsmunaaðila höfðu áður gert formanni ítarlega grein fyrir viðhorfum sínum og umbjóðenda þeirra til ágreiningsefnisins.

LÍÚ krefst þess aðallega, að skiptahlutfall til áhafnar m/b Sighvats skuli vera lægra en tilboð Vinnslustöðvarinnar hf. til áhafnar Sighvats og samningur félagsins við áhöfn m/b Gullbergs frá 11. nóvember sl. fela í sér, en til vara að tilboð útgerðar til áhafnar Sighvats, sem er efnislega samhljóða samningi við áhöfn Gullbergs, verði látið gilda við uppgjör til áhafnar m/b Sighvats Bjarnasonar.

Aðalkröfu sína styðja fulltrúar LÍÚ þeim rökum, að samningurinn við áhöfn Gullbergs feli í sér hagstæðari hlutaskipti til áhafnar en almennt gildi á síldveiðiflotanum, en rökstyðja varakröfu sína með vísan til þess, að engin rök hnígi til þess að mismunandi launakjör eigi að gilda hjá áhöfnum skipa í eigu Vinnslustöðvarinnar hf., sem stundi sams konar veiðar, enda feli samningur félagsins við áhöfn m/b Gullbergs í sér hagstæð hlutaskipti sé tekið mið af því, sem almennt tíðkist, eins og aðalkrafan byggist á, sbr. þá samninga, sem Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) hafi lagt fyrir úrskurðarnefnd.

Fulltrúar sjómanna hafna því, að leggja skuli samning við áhöfn Gullbergs til grundvallar og krefjast aðallega hærra skiptahlutfalls en þar hafi verið samið um enda hafi sá samningur verið sérstaklega borinn undir áhöfn Sighvats Bjarnasonar og honum hafi verið hafnað. Til vara krefjast fulltrúar sjómanna, að tilboð útgerðar Sighvats við áhöfn verði látinn gilda. Fulltrúar sjómanna hafna þeirri fullyrðingu úgerðarmanna að í tilboði Vinnslustöðvarinnar hf. til áhafnar Sighvats felist hærra verð en almennt gerist á síldveiðiflotanum þegar litið er til tilboðsins í heild sinni. Fulltrúar sjómanna vísa til þess til stuðnings aðalkröfu sinni, að lögin um Verðlagsstofu nr. 13/1998 undirstriki samningsfrelsi áhafna og taki sérstaklega fram, að samningur áhafnar og útgerðar gildi aðeins og eingöngu milli viðkomandi samningsaðila, en yfirfærist ekki yfir á áhafnir annarra skipa í eigu sömu útgerðar, sbr.. 1. mgr. 10. gr. laganna. Því sé ljóst, að úrskurðarnefnd beri að ákveða verð, sem sé hærra en það verð, sem áhöfn hafi staðið til boða en verið hafnað.

N I Ð U R S T A Ð A

VSS hefur lagt fyrir úrskurðarnefnd nokkra samninga útgerða við áhafnir skipa sinna, sem stunda síldveiðar á þessu hausti. Athugun þessara samninga leiðir í ljós, að tilboð Vinnslustöðvarinnar hf. til áhafnar m/b Sighvats Bjarnasonar, sem er efnislega samhljóða þeim samningi, sem gerður var við áhöfn Gullbergs, víkur í engu frá þeirri verðlagningu, sem algengust er og virðist í fullu samræmi við það, sem tíðkast við verðlagningu afla til áhafna síldveiðiskipa.

Samningur Vinnslustöðvarinnar hf. við áhöfn m/b Gullbergs VE-81 var lagður fram í úrskurðarnefnd, en tilboð félagsins til áhafnar Sighvats Bjarnasonar var ekki lagt fram. Á hinn bóginn var upplýst, að tilboðið hafi verið samhljóða samningi þeim, sem útgerðin gerði við áhöfn m/b Gullbergs.

Því þykir rétt, að ákveða að við uppgjör til áhafnar m/b Sighvats Bjarnasonar VE-81 skuli miðað við samning Vinnslustöðvarinnar hf. við áhöfn m/b Gullbergs VE-292 frá 11. nóvember sl. Skal sá samningur skoðast sem hluti þessa úrskurðar.

Úrskurður þessi gildir til 15. janúar 2006.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Öll ákvæði samnings Vinnslustöðvarinnar hf. við áhöfn m/b Gullbergs VE-292 frá 11. nóvember sl., skulu gilda við uppgjör síldarafla m/b Sighvats Bjarnasonar VE-81 við áhöfn þess skips og skal sá samningur skoðast sem hluti þessa úrskurðar.

Úrskurður þessi gildir til 15. janúar 2006.

Skúli J. Pálmason
Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn H. Hjartarson