Úrskurður nr. 3/1998
Árið 1998, mánudaginn 26. október er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að viðstöddum, Helga Laxdal, Guðjóni A. Kristjánssyni, Sævari Gunnarssyni, Kristjáni Ragnarssyni, Sveini Hirti Hjartarsyni, Pétri H. Pálssyni og Skúla J. Pálmasyni.
Fyrir er tekið málið nr. U3/1998.
Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) sendi málið til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 12. október sl. Í bréfinu segir, að málinu sé vísað til úrskurðarnefndar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998. Beiðnin fjallar um ákvörðun á verði síldar til áhafnar Hábergs GK-299 sem aflasala og Samherja hf. /Fiskimjöls og lýsis hf., sem teljist skyldir aðilar í skilningi tilgreindra laga.
Í bréfinu kemur fram, að VSS hafi borist athugasemd um það, að verð, sem aflakaupi hafi greitt til áhafnar Hábergs GK-299 við löndun í Grindavík hafi numið kr. 12.20 pr. kg. en fyrir liggi, að Svanur RE-45 hafi fengið greiddar kr. 14.50 kr./kg. fyrir sambærilegan afla, sem landað hafi verið á nálægum stað. VSS sendi úrskurðarnefnd upplýsingar um verð, sem greidd hafi verið fyrir síld í bræðslu og vinnslu á Austfjörðum, Grindavík og Akranesi.
Eftir að hafa kynnt sér þessi gögn telur meiri hluti nefndarinnar rétt að ákveða að við uppgjör til áhafnar Hábergs GK-299 fyrir síld, sem útgerð skipsins landar hjá fyrirtækjum í eigu Samherja hf. skuli miða við kr. 13.45 pr./kg.
Gildistími úrskurðarins skal vera til 1. desember n.k.
Að úrskurði stóðu:
Skúli J. Pálmason
Guðjón A. Kristjánsson
Helgi Laxdal
Sævar Gunnarsson