Úrskurður nr. 3/2000
Árið 2000, miðvikudaginn 22. mars er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Mættir eru: Helgi Laxdal, Grétar Mar Jónsson, Friðrik J. Arngrímsson, Sveinn Hjörtur Hjartarson og Skúli J. Pálmason, formaður nefndarinnar.
Fyrir er tekið mál nr. U-3/2000
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
Sjómannasamband Íslands,
og
Vélstjórafélag Íslands
fh. áhafnar Elliða GK-445,
gegn
Haraldi Böðvarssyni hf.
og kveðinn upp svohljóðandi
Úrskurður:
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands vísaði máli þessi til úrskurðarnefndar með bréfi til Verðlagsstofu skiptaverðs dags. 3. mars sl. Málið var tekið fyrir á fundi fulltrúa hagsmunaaðila í úrskurðarnefnd hinn 7. mars sl. Þar var ákveðið að fresta málinu til 13. mars sl. í því skyni að freista þess að ráða því þá til lykta án úrskurðar. Ekki náðist samkomulag á fundinum 13. mars og var því afráðið að kveðja til formann nefndarinnar á næsta fund, sem haldinn var 17.mars. Þar lögðu fulltrúar hagsmunaaðila fram greinargerðir sínar og kröfur, sem þeir gerðu síðan formanni nefndarinnar frekari grein fyrir á fundinum. Formaður tók sér frest til dagsins í dag í samráði við fundarmenn til að ljúka málinu með úrskurði.
Hér á eftir verður vísað til fulltrúa sjómanna í nefndinni sem sóknaraðila, en fulltrúar útvegsmanna, sem gæta hagsmuna Haraldar Böðvarssonar hf., verða eftirleiðis nefndir varnaraðili.
Kröfur sóknaraðila eru þær, að verð til áhafnar Elliða GK-445 verði ákveðið þannig:
Loðna til bræðslu miðað við standardmjöl verði 4.200 kr.pr. tonn.
Loðna til bræðslu m.v. hágæðamjöl verði 5.320 kr. pr. tonn.
Verð fyrir loðnuhrogn skal miða við 43% af FOB verði frystra loðnuhrogna til Japans.
Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili til leiðbeinandi verðs, sem Farmanna –og fiskimannasamband Íslands hafi tekið saman. Krafan sé studd þeim rökum, sem lögfest hafi verið í 2. mgr. 5. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998, en lagagreinin sé svohljóðandi: ,,Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun aflans. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaveðs. Varði ákvörðun nefndarinnnar fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips”.
Tilkynning Farmanna- og fiskimannasambands Íslands til skipstjórnarmanna á loðnuskipum frá 23. febrúar sl. um leiðbeinandi verð á loðnu, sem sóknaraðili vísar til hljóðar svo:
,,1. Loðna til bræðslu.
Með hliðsjón af áætlun um mjöl- og lýsisnýtingu í 8 viku þessa árs, afurðaverði og gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendri mynt, gæti lágmarksverð á loðnu til bræðslu verið samkvæmt eftirfarandi töflu:
Leiðbeinandi verð á loðnu til bræðslu m.v. gefin hlutföll af CIF-verði afurða. |
||||||
m.v.standard mjöl |
m.v. hágæðamjöl * |
|||||
55% |
54% |
53% |
55% |
54% |
53% |
|
kr/tonn |
kr/tonn |
kr/tonn |
kr/tonn |
kr/tonn |
kr/tonn |
|
4.200 |
4.140 |
4.060 |
5.320 |
5.230 |
5.130 |
*Hágæðamjöl er með 30% hærra verði en standardmjöl. ………..”
….,,Forsendur sem stuðst er við vegna úreiknings á leiðbeinandi verði á loðnu til bræðslu eru sem hér greinir:
Verð á loðnumjöli: :318 GBP CIF pr. tonn Mjölnýting 18,3%.
Verð á loðnulýsi: 260 USD CIF pr. tonn Lýsisnýting 5,0%.
Kaupgengi GBP=115,80 ÍKR., Kaupgengi USD=71,97 ÍKR.
2. Loðna til frystingar og loðnuhrogn.
Leiðbeinandi verð á loðnu til frystingar er á bilinu 34%-37% af afurðarverði (FOB). Leiðbeinandi verð á loðnuhrognum fyrir yfirstandandi vertíð miðast við 43% af FOB verði frystra loðnuhrogna til Japans. Varðandi rökstuðning við þessum verðhlutföllun er vísað í fyrri bréf Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um leiðbeinandi verð á loðnu”.
Sóknaraðili vísar til þess, að áhöfn Elliða GK-445 hafi árangurslaust reynt að ná samkomulagi við útgerð skipsins um loðnuverð undanfarnar vikur.
Sóknaraðili telur kröfur sínar sanngjarnar og byggða á hlutlægum rökum, með vísan til framangreindra sjónarmiða.
Varnaraðili gerir þá kröfu, að Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna ákveði að neðangreint verð skuli gilda við uppgjör til áhafnar Elliða GK-445:
Fyrir loðnuhrogn: |
38.50 kr/kg. |
Fyrir loðnuhrat: |
2.800 kr/tonn. |
Fyrir loðnu til bræðslu fyrir upphaf hrognatöku 3. mars: |
3.600 kr/tonn. |
Loðnuverð til bræðslu frá og með 12. mars: |
3.000 kr/tonn. |
Varnaraðili byggir á því, að verð það sem útgerð Haraldar Böðvarssonar hf. (H.B.) hefur greitt áhöfn Elliða GK-445, sé í ágætu samræmi við það verð sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun og teljist því vera markaðsverð. Vísar varnaraðili til samantektar Verðlagsstofu skiptaverðs máli sínu til stuðnings.
Í samantekt þessari komi m.a. fram, að H.B. hafi greitt hæsta verð á svæðinu fyrir loðnuhrogn.
Forsendur og niðurstaða:
Sóknaraðili vísar til 2. mgr. 5. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs o.fl. nr. 13/1998 til stuðnings kröfum og rekur orðrétt efni greinarinnar. Ljóst er að sóknaraðili á við 2. mgr. 11. gr. í núgildandi lögum nr. 13/1998, en sú lagagrein var áður 2. mgr. 5. gr. í lögum um Úrskurðarnefnd nr. 84 frá árinu 1995 og var orðrétt tekin upp í núgildandi lög.
Samkvæmt beinu orðalagi þessa lagaákvæðis ber úrskurðarnefnd að byggja ákvarðanir sínar á algengasta fiskverði við sambærilega ráðstöfun afla. Nefndin skal leita til Verðlagstofu skiptaverðs (VSS) um upplýsingaöflun skv. 1. mgr. 11. gr. núgildandi laga.
Af því tilefni hefur formaður nefndarinnar leitað upplýsinga hjá VSS um loðnuverð á Faxaflóasvæðinu og einnig fengið upplýsingar um loðnuverð, sem greitt hefur verið síðustu daga í Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum og Bolungarvík.
Þær upplýsingar hafa leitt í ljós, að frá 12. mars hefur verið greitt fyrir loðnu til bræðslu sem hér segir:
Faxamjöl í Reykjavík, sjö landanir 3.000 kr/tonn loðnuhrat.
Faxamjöl í Þorlákshöfn tvær landanir 3.200 kr/tonn loðna.
Verksmiðja SR mjöls í Helguvík 3.000 kr/tonn loðna.
Ísfélag Vestmannaeyja 3.400 kr/tonn loðna.
Bolungarvík 3.100 kr/tonn loðna.
H B 3.000 kr/tonn. Þar af einn aðkomubátur.
Fyrir tímabilið frá 3. mars sl., þegar mál sóknaraðila bókað hjá VSS, sem er sú viðmiðun, sem nefndin hefur komið sér saman um að leggja til grundvallar, liggja fyrir upplýsingar um verð hjá eftirtöldum loðnuverksmiðjum.
SR Helguvík, kr.3.300 kr/tonn, loðna. Loðnuhrat 2.800 kr/tonn. landað frá 3.-7. mars sl. Hrogn 35 kg/kr.
Faxamjöl, Reykjavík, landað, 3. mars loðna 3.000 kr/tonn. Loðnuhrat 2.800 kr/tonn, móttekið frá 3.-7. mars. Hrogn 37 kg/kr.
Barðsnes, Sandgerði, loðna, landað 3.og 4 mars 3.800 kr/tonn og landað 5. mars 3.650 kr/tonn.
Ísfélag Vestmannaeyja, loðnuhrat 3.-7. mars 3.000 kr/tonn. Hrogn 37 kg/kr. landað á sömu dögum.
H.B. Akranesi, loðna landað 3. mars 3.600 kr/tonn. Loðnuhrat landað, 4-6 mars 2.800 kr/tonn. Hrogn landað 4-6 mars 3.85 kg/kr.
VSS hefur reiknað út verðmæti afla Elliða Gk-445, hefði skipið lagt upp hrogn og hrat hjá ofangreindum loðnuverksmiðjum á tímabilinu frá 3-7 mars sl. að Barðsnesi undanskildu.
Niðurstaða þess útreiknings var á þá leið, að ekki var marktækur munur á verði til áhafnar. Munurinn nam 4 aurum á þeim hæst greiddu og á verði HB. Verð HB var 6 aurum hærra en vegið meðaltal, , en 27 aurum hærra en SR mjöl greiddi, sem greiddi lægsta verðið.
Úrskurðarnefnd skal einnig, samkvæmt tilvitnaðri lagagrein, taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Formaður nefndarinnar leitaði til VSS af því tilefni. Sú umleitan skilaði engum árangri og sú skýring gefin, að Þjóðhagsstofnun fengi ekki lengur upplýsingar frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um þróun á afurðaverði og fyrirspurnir til smærri útflytjenda um verðupplýsingar hefðu ekki borið árangur. Þjóðhagstofnun væri að kanna aðrar leiðir til að afla þessara upplýsinga. Því á nefndin þess því engan kost, eins og málum þessum er komið, að taka tillit til þróunar afurðaverðs. Fyrir liggur að verð á loðnuafurðum, einkum loðnulýsi hefur hríðfallið á síðustu mánuðum. Óvíst er, hvenær breyting verður þar á til batnaðar. Þetta er skýring þess lága loðnuverðs, sem greitt hefur verið útgerðum og áhöfnum loðnuskipa.
Sóknaraðili miðar kröfur sínar við hlutfall af Cifverði loðnuafurða. Slík verðlagning er að mati meiri hluta nefndarinnar andstæð þeim fyrirmælum, sem nefndinni eru gefin í tilvitnaðri lagagrein. Einnig skortir allar upplýsingar um það, hvað telja skuli eðlilegt hlutfall hráefniskostnaðar annars vegar og fullunninna loðnuafurða hins vegar. Væri sú leið farin, sem sóknaraðili gerir kröfu til yrði um miðstýrða verðlagningu að ræða. Slíkt er andstætt þeirri grundvallarhugsun, sem ráða má af 2. mgr. 9. gr. laga um Verðlagsstofu o.fl. nr. 13/1998 og ákvæðum kjarasamninga um að áhöfn og útgerð skuli gera með sér samning um fiskverð.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða þykir ekki fært að fallast á kröfu sóknaraðila.
Meiri hluti Úrskurðarnefndar telur rétt að leggja til grundvallar það verð, sem Haraldur Böðvarsson hf. hefur boðist til að greiða áhöfn Elliða GK-445, og er samhljóða kröfum varnaraðila, enda víkur það ekki frá því verði, sem algengast er við sambærilega aflaráðstöfun.
Við uppgjör til áhafnar Elliða GK-445, skal miða við þá verðákvörðun, sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurðarorð:
Haraldur Böðvarsson hf. skal við uppgjör á loðnuafla Elliða GK-445 til áhafnar skipsins miða við neðangreind verð:
Fyrir loðnuhrogn: |
38.50 kr/kg. |
Fyrir loðnuhrat: |
2.800 kr/tonn. |
Fyrir loðnu til bræðslu fyrir upphaf hrognatöku 3. mars: |
3.600 kr/tonn |
Loðnuverð til bræðslu frá og með 12. mars: |
3.000 kr/tonn. |
Úrskurður þessi skal gilda til loka vorvertíðar á loðnu á þessu ári.
Skúli J. Pálmason
Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn H. Hjartarson