Úrskurður nr. 3/2014
Föstudaginn 14. nóvember 2014 er kveðinn upp úrskurður í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna skv. lögum nr. 13/1998.
Fyrir er tekið mál nr. Ú3/2014:
Verðlagsstofa skiptaverðs
gegn
útgerðinni Vinnslustöðinni hf. vegna ákvörðunar um verð á veiddri Íslandssíld hjá áhöfn Kaps VE 4 (2363) og Sighvats Bjarnasonar VE 81(2281).
Atvik og sjónarmið aðila:
Mál þetta á rætur sínar að rekja til málskots Verðlagsstofu skiptaverðs vegna verðlagningar Vinnslustöðvarinnar hf. á Íslandssíld hjá áhöfnum Kaps VE 4 og Sighvats Bjarnasonar VE 81 dags. 4. nóvember 2014.
Málskotið byggir á 2. mgr. 7. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Undanfari þess er sá að Verðlagsstofa fær almennar upplýsingar um fiskverð á grundvelli 4. gr. laganna frá útgerðum. Ef kemur fram í þeim upplýsingum að fiskverð víki við uppgjör á aflahlut áhafnar í verulegum atriðum frá því sem algengast er, við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða, skuli Verðlagsstofa taka málið til sérstakrar athugunar. Í umræddri 2. mgr. 7. gr. kemur fram að Verðlagsstofa skuli skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar telji hún ekki fram komnar fullnægjandi skýringar á fiskverði við þessa sérstöku athugun.
Í máli þessu kemur það fram í málskoti þann 4. nóvember sl. að útgerðin Vinnslustöðin hf. hefði gefið Verðlagsstofu upplýsingar um fiskverðssamninga við áhafnir Kaps VE 4 og Sighvats Bjarnasonar VE 81 í lok október sl. Mat Verðlagsstofu, eftir skýringar Vinnslustöðvarinnar hf. á umræddum verðum var að þau vikju verulega frá því sem algengast er, við sambærilega ráðstöfun afla á viðkomandi landsvæði að teknu tilliti til stærðar og gæða og að ekki hefðu komið fram fullnægjandi útskýringar á umræddum verðmun og var því málinu vísað til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skv. fyrirmælum 2.mgr. 7.gr. laga nr. 13/1998.
Með málskoti fylgdu upplýsingar um verð annarra útgerða á Íslandssíld og samanburður Verðlagsstofu m.t.t. upplýsinga um landaðan afla m.v. þær upplýsingar sem Verðlagsstofa hafði þann sama dag, 4. nóvember 2014. Frekari útreikningar bárust þann 10. nóvember 2014 á grundvelli nýrra upplýsinga sem Verðlagsstofu höfðu þá borist.
Í 13. gr. laga nr. 13/1998 kemur fram að þegar eftir að máli er skotið til úrskurðar úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skuli þeir nefndarmenn, sem tilnefndir eru af heildarsamtökum sjómanna annars vegar og útvegsmanna hins vegar, taka málið til umfjöllunar og skal ákvörðun þeirra liggja fyrir innan sjö daga. Þeir nefndarmenn komu saman á fundi sem haldinn var 6. nóvember 2014. Í fundargerð vegna þess fundar kemur fram að fulltrúi útgerðanna gerði athugasemdir við forsendur samanburðarútreikninga. Samþykkt var að fresta málinu til að fá frekari upplýsingar frá útgerðinni. Á fundinum var einnig ákveðið að ef ekki næðist samkomulag fyrir kl. 13 þann 10. nóvember 2014 þá yrði málinu vísað til fullskipaðrar nefndar. Mánudaginn 10. nóvember 2014 varð ljóst að nefndarmenn myndu ekki ná samkomulagi á þessu stigi málins og var málinu því vísað til fullskipaðrar nefndar. Fundur nefndarinnar, fullskipaðrar, var boðaður 13. nóvember 2014 og nefndarmenn fengu sendar athugasemdir frá fulltrúum útgerðar þann 11. nóvember 2014 og starfsmönnum Verðlagsstofu þann 12. nóvember 2014.
Fimmtudaginn 13. nóvember 2014 kom fullskipuð úrskurðarnefnd saman að Stórhöfða 25 í Reykjavík. Á fundinum var farið yfir hvort formkröfur laga nr. 13/1998 væru uppfylltar varðandi málskotið og komist að efnislegri niðurstöðu í málinu sem formaður nefndarinnar og fulltrúar tilnefndir af útvegsmönnum samþykktu en fulltrúar hagsmunasamtaka sjómanna greiddu atkvæði á móti.
NIÐURSTAÐA
Í málinu liggur fyrir að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1998 getur Verðlagsstofa skiptaverðs skotið málum til úrskurðarnefndar, sbr. ákvæði 7. gr. sömu laga. Þetta málskot byggir á orðalagi 2. mgr. 7. gr. laganna um að stofnunin skuli skjóta máli til úrskurðarnefndar ef ekki berast fullnægjandi skýringar á fiskverði sem Verðlagsstofa telur víkja í verulegum atriðum frá því sem algengast er. Athugasemdir fulltrúa útvegsmanna varðandi formskilyrði laga nr. 13/1998 lúta að því að ákvörðun úrskurðarnefndar gildi skv. 1. mgr. 10. gr. laganna eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Fulltrúi útvegsmanna vísaði því til þeirrar afstöðu samtakanna að þegar máli væri vísað til úrskurðarnefndar varðandi tvær útgerðir skuli því vísa því frá.
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1998 er vísað til þess að ákvörðun úrskurðarnefndar gildi eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar. Í málskoti Verðlagsstofu skiptaverðs 4. nóvember 2014 er bæði skýrt og greinilegt að að málskotið varði bæði áhöfn Kaps VE 4 og Sighvats Bjarnasonar VE 81 sem og útgerð Vinnslustöðvarinnar hf. Verður því ekki fallist á frávísun málsins og hvorki tilvísun til úrskurðar nr. 02/1998 né dóms Hæstaréttar í máli nr. 359/2008 breytir þeirri niðurstöðu. Vísast einnig til úrskurðar í máli nr. Ú2/2014 í sambærilegu máli.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar um verðsamninga sem útgerðin Vinnslustöðin hf. hyggst greiða fyrir Íslandssíld til áhafna skipanna Kaps VE 4 og Sighvats Bjarnasonar VE 81, upplýsingar um verð sem greidd vöru vegna löndunar Sighvats Bjarnasonar 30. október 2014 sem og útskýringar frá útgerðinni, sbr. tölvupóstur 4. nóvember sl. Þar kom fram að verð útgerðarinnar til umræddra áhafna var 35 krónur vegna síldar til bræðslu og 41,8 krónur vegna síldar til vinnslu þar sem miðað er við verð upp úr sjó.
Til samanburðar voru verð hjá öðrum útgerðum skoðuð. Í gögnum frá Verðlagsstofu sem fylgdu málskoti, sem og viðbótargögnum um nýtingarhlutfall hjá Vinnslustöðinni hf. upp á 41,9%, kemur fram að verð hjá öðrum útgerðum var fyrir sambærilegan afla um 8-18% hærra en hjá Vinnslustöðinni hf. Verð hjá samtals fjórum öðrum útgerðum á síld upp úr sjó til vinnslu var á bilinu 46,5 - 50,5 kr. og verð á síld til bræðslu 38-40 kr. Einnig lágu fyrir upplýsingar um eina útgerð til viðbótar þar sem úrskurðað var um verð í máli nr. Ú2/2014. Niðurstaða þess úrskurðar var ekki reiknuð inn í meðaltalsútreikninga þar sem ákvörðun um verð í þeim úrskurði miðaðist við miklu takmarkaðri upplýsingar um verð annarra heldur en nú liggja fyrir.
Í greinargerð fulltrúa útvegsmanna voru sambærilegar tölur taldar reiknast frá 9-12% og kemur þar fram sú afstaða að slíkur munur geti ekki talist verulegur. Einnig var vísað til gildandi fiskverðssamninga og ekki væri sýnt að aðstæður á markaði biðu upp á frekari hækkun á verði m.t.t. stöðu Vinnslustöðvarinnar hf.
Úrskurðarnefnd fór yfir öll gögn málsins og farið var yfir frekari upplýsingar um stöðu einstakra útgerða m.t.t. aflaheimilda og veiðireynslu á vertíðinni. Með hliðsjón af þeirri umræðu og að teknu tilliti til athugasemda útvegsmanna verður þó ekki annað ráðið en að algengasta verð sem greitt hefur verið fyrir Íslandssíld, m.v. magn sem landað hefur verið nú þegar, sé alltaf alla vega 13-18% hærra hjá þeim útgerðum þar sem skip þeirra höfðu landað mestum afla, en hjá Vinnslustöðinni hf. Að öllu þessu virtu verður að telja slíkan mun þannig að verð Vinnslustöðvarinnar víki verulega frá því sem algengast er fyrir sambærilegan afla í skilningi 1.mgr. 7.gr. laga nr. 13/1998.
Ákvörðun fiskverðs og niðurstaða formanns úrskurðarnefndar:
Ákveðið er að verð á síld upp úr sjó skuli aðallega taka mið af m.a. vegnu meðaltali verða þeirra útgerða sem hafa verið við veiðar á sambærilegum afla. Það þýðir að það verð sem algengast er, m.v. upplýsingar um aflamagn þeirra útgerða sem úrskurðarnefnd hefur upplýsingar um og staðfest er í gögnum frá Verðlagsstofu skiptaverðs, hefur meira vægi við ákvörðun verðs en verð hjá útgerðum sem hafa landað litlum afla. Í ákvörðun um verð var einnig að einhverju leyti, þó takmörkuðu, tekið tillit til stöðu aflaheimilda og þess sem óveitt er hjá einstaka útgerðum.
Verð á síld upp úr sjó til vinnslu skal vera 48,5 krónur.
Verð á síld til bræðslu skal vera 39 krónur.
Samkvæmt 2.mgr. 10.gr. laga nr. 13/1998 skal ákvörðun nefndarinnar ná til verðs fyrir afla sem landað er eftir að ákvörðun nefndarinnar er tilkynnt aðilum , en þó aldrei síðar en sjö dögum eftir að málinu var skotið til hennar ef hún varðar kæru frá Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 1.mgr. 9.gr. laganna. Þar sem um er að málskot sem byggir á 1.mgr. 9.gr. laganna telst ákvörðun nefndarinnar gilda vegna afla sem landað er frá 11. nóvember 2014, sem er sjö dögum eftir málskot sem barst nefndinni þann 4. nóvember 2014. Ákvörðunin gildir í til 24. desember 2014.
Úrskurðarorð
Verð á síld hjá útgerð Vinnslustöðvarinnar hf. til áhafna Kaps VE 4 og Sighvats Bjarnasonar VE 81 skal vera eftirfarandi:
Verð á síld upp úr sjó: 48,5 krónur.
Verð á síld til bræðslu: 39 krónur.
Úrskurður þessi gildir frá 11. nóvember til 24. desember 2014
Þóra Hallgrímsdóttir
Friðrik Friðriksson