Fara í efni

Úrskurður nr. 5/2000

Ár 2000, fimmtudaginn 6. júlí, er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna að Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík. Fundinn sitja, Friðrik Arngrímsson, Stefán Friðriksson, Sturlaugur Sturlaugsson, Helgi Laxdal, Grétar Mar Jónsson, Sævar Gunnarsson auk oddamanns Valtýs Sigurðssonar.

Fyrir er tekið málið U 5/2000

heildarsamtök sjómanna f.h. áhafnar Páls Pálssonar ÍS -102 gegn

Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf.

Í málinu var kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

I.

Málsmeðferð nefndarinnar.

Með bréfi, dagsettu 15. júní 2000, vísuðu heildarsamtök sjómanna málinu til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna þar sem ekki hafði náðst samkomulag milli áhafnar og útgerðar Páls Pálssonar ÍS-102.

Erindið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 20. júní sl. og var þar ákveðið að kalla til oddamann er ljóst var að ekki næðist samkomulag í málinu. Ákveðið var að heildarsamtök sjómanna f.h. áhafnar yrðu sóknaraðilar málsins.

Sóknaraðili skilaði greinargerð, dagsettri 28. júní sl., og greinargerð varnaraðila er dagsett 30. júní sl. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur aflað gagna fyrir nefndina.

Á fundi nefndarinnar í dag voru gögn málsins lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var að því búnu lagt í úrskurð.

II.

Kröfur sóknaraðila eru sem hér segir:

Þorskur:

Undirmál 70 kr./kg + 5 kr./kg flokkunargjald = 75 kr./kg

1,4 kg + 90 kr./kg + 5 kr./kg flokkunargjald = 95 kr./kg

Ýsa:

Undirmál 55 kr./kg + 5 kr./kg flokkunargjald = 60 kr./kg

0,8 – 1,0 kg 81 kr./kg + 5 kr./kg flokkunargjald = 86 kr./kg

1,0 kg og yfir 92 kr./kg + 5 kr./kg flokkunargjald = 97 kr./kg

Steinbítur

66 kr./kg

Aðrar tegundir:

Aðrar fisktegundir en að ofan greinir hækki um 15% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.

Gildistími:

Gildistími úrskurðar skal vera frá 15. júní til 15. september 2000.

 

Kröfur varnaraðila eru sem hér segir:

Þorskur.

Fiskur undir 1,4 kg. 65 kr./kg

Fiskur 1,4 kg og stærri 73 – 100 kr./kg samkvæmt fylgiskjali nr. 4 sem merkt er “Lokatilboð.”

Ýsa:

Undir 0,8 kg, 45 cm 50 kr./kg

0,8 – 1,0 kg 72 kr./kg

1,0 kg og yfir 86 kr./kg

Aðrar tegundir.

Verð á öðrum fisktegundum verði hið sama og í fiskverðssamningi útgerðar og áhafnar frá 30.11.1998.

Önnur ákvæði.

Önnur ákvæði verði hin sömu og í fiskverðssamningi útgerðar og áhafnar frá 30.11.1998.

Fallist er á kröfu sóknaraðila um gildistíma úrskurðar.

Rökstuðningur sóknaraðila.

Í rökstuðningi fyrir kröfum sínum vísar sóknaraðili til 11. greinar laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þá komi skýrt fram í kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og skuli hann tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Sóknaraðili telur að þrátt fyrir ákvæði 11. greinar laga nr. 13/1998, um að taka skuli mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum, sé slíkur samanburður í flestum tilvikum ekki rökréttur. Í fyrsta lagi sé afli viðkomandi skips, sem verið sé að verðleggja í úrskurðarnefnd, uppistaða aflans í viðkomandi byggðarlagi og nágrannabyggðum. Úrtakið verði því ómarktækt enda verið að bera verð á afla skipsins saman við sjálft sig.

Í öðru lagi sé í slíku úrtaki skip sömu útgerðar og það skip sem verið er að fjalla um, eða að tekið sé mið af verði skipa sem gerð sé út í nágrannabyggðarlögunum, þó svo að sú verðlagning endurspegli ekki eðlilegt verð fyrir aflann. Vegna þessa sé eðlilegt að miða við sama veiðarfæri miðað við landið allt enda liggi fyrir að afli veiddur í sama veiðarfæri sé sambærilegur að stærð óháð því hvaðan skipið sé gert út. Ljóst sé að með því náist það markmið laganna að bera saman verð á sambærilegum afla.

Sóknaraðili bendir á að hafa beri í huga að meðalverð á afla, sem gefið sé upp í opinberum skýrslum, segi ekki allt um það hvað raunverulega sé greitt fyrir aflann. Þekkt sé að blandað sé saman fiskviðskiptum annars vegar og viðskiptum með aflamark og jafnvel aflahlutdeild hins vegar. Gögn málsins sýni verð á þorski til einstakra skipa sem stunduðu botnvörpuveiðar í janúar til mars 2000. Samkvæmt þeim séu ýmsir aðilar að greiða afar lágt verð fyrir þorskinn. Í mörgum tilvikum megi rekja það lága verð til þess, að útgerðin sé að fjárfesta í veiðiheimildum. Samkvæmt kjarasamningum og lögum sé óheimilt að sjómenn taki þátt í kvótakaupum útgerðarinnar. Því sé eðlilegt að hreinsa úrtakið áður en meðalverð til viðmiðunar er fundið. Meðalverð á þorski, sem veiddur var í botnvörpu tímabilið janúar til mars 2000 sé 91,50 kr./kg samkvæmt upplýsingum Verðlagsstofu skiptaverðs. Sé í þessu sambandi miðað við óhreinsaðar upplýsingar, en hið raunverulega meðalverð sé hærra, eðli málsins samkvæmt.

Í ársskýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs fyrir árið 1999 komi fram í kafla III að athuganir Verðlagsstofu bendi sterklega til að það meðalverð einstakra fisktegunda, sem birt sé á vegum stofunnar, endurspegli ekki það verð sem í raun sé greitt fyrir aflann. Af þeim sökum verði að telja að viðmiðanir, frávikagreiningar og jafnvel niðurstöður úrskurða séu byggðar á frekar ótraustum grunni. Sjálfstæðar athuganir stofunnar hafi leitt í ljós að í flestum tilvikum sé lágt fiskverð tengt kvótakaupum, afbrigðilegum uppgjörsmáta eða skyldum þáttum. Þetta þýði m.ö.o. að raunverð fyrir fiskinn sé hærra en fram komi í opinberum skýrslum.

Sóknaraðili telur afar hæpið að nota upplýsingarnar um bein viðskipti með fisk sem grunn að verðákvörðun. Ef nota eigi slíkar upplýsingar sem grunn verði áður að sía þær og taka út áhrif af kvótakaupum og þess háttar viðskiptum sem mengi uppgefið fiskverð. Auk þess geti nefndin ekki lengur horft fram hjá þeirri staðreynd að viðskipti með fisk eigi sér einnig stað á fiskmörkuðum. Verð í beinum viðskiptum myndist að miklu leyti með einhliða tilskipunum útgerðarmanna um fiskverð samhliða kvótabraski og þess háttar óeðlilegum viðskiptamáta. Bein viðskipti með fisk gefi því ekki rétta mynd af eðlilegu viðskiptaverði aflans. Því telji sóknaraðili að eingöngu eigi við verðákvarðanir að styðjast við upplýsingar um fiskverð á mörkuðunum, enda engin annar raunhæfur viðmiðunargrunnur fyrir hendi.

Samkvæmt framansögðu sé meðalverð á þorski, sem veiddur sé í botnvörpu á tímabilinu janúar til mars 2000, 156,20 kr./kg sem raunhæft sé að miða við í þessu tilviki. Rétt sé að geta þess að á sínum tíma hafi fiskverðssamningur, sem gerður var hjá Útgerðarfélagi Akureyringa við áhafnir skipa útgerðarinnar verið tekinn upp á skipum Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. Ljóst er að skipverjar á Páli Pálssyni ÍS- 102 hafi nú dregist langt aftur úr skipverjum á öðrum skipum einkum hvað fiskverð varðar. Sóknaraðili telur því eðlilegt og sanngjarnt að fallist verði á kröfur sjómanna í þessu máli.

Rökstuðningur varnaraðila.

Af hálfu varnaraðila er vísað til 11. greinar laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og á það bent að þar sé lagður megingrundvöllur að starfi úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun afla. Í þeim tilfellum, sem afla af Páli Pálssyni ÍS 102 hafi verið ráðstafað til skylds aðila, beri nefndinni að líta til fiskverðs á þeim skipum sem gerð séu út frá nærliggjandi byggðarlögum og veiði sambærilegan fisk, ráðstafað til skyldra aðila.

Páll Pálsson ÍS-102 sé 583 brl. skuttogari, gerður út frá Ísafirði. Í gögnum málsins komi fram upplýsingar frá Verðlagsstofu skiptaverðs um verð á þorski, ýsu og steinbít í janúar til mars 2000 hjá togurum yfir 250 brl., gerðir út frá Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra þar sem aflanum sé ráðstafað til skyldra aðila. Varnaraðli byggi á, að borið saman við það verð séu engin efni til að hækka fiskverð sem síðasti fiskverðssamningur aðilanna frá 30. nóvember 1998 kvað á um.

Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að í flestum tilvikum sé samanburður við fiskverð í nærliggjandi byggðarlögum ekki rökréttur. Þessari fullyrðingu er mótmælt sem rangri auk þess sem úrskurðarnefndin hefur enga heimild til að víkja frá skýru ákvæði laga hvað þetta varðar hvað sem skoðunum einstakra nefndarmanna líður. Sú fullyrðing sóknaraðila, að eðlilegt sé að miða við sama veiðarfæri miðað við landið, sé beinlínis röng enda mikill munur á stærð þess þorsks sem veiddur er af togskipum eftir því hvar veiðar eru stundaðar. Þá sé það mismunandi hvar skip af mismunandi stærð og með mismunandi aflvísi mega stunda togveiðar sem leiði til þess, að veiddur fiskur verði ekki sambærilegur að stærð.

Á fylgiskjölum nr. 6, nr. 7, og nr. 8 komi fram meðalþyngd þorsks, veiddum af Páli Pálssyni ÍS-102, Drangavík VE-80 og Jóni Vídalín ÁR-1, sem sýni glögglega að fullyrðing sóknaraðila sé röng.

Í fiskverðssamningnum frá 30.11.1998 sé miðað við að sama verð sé greitt fyrir allan fisk sem er yfir 1,4 kg. Útgerðin leggi mikla áherslu á að þessu verði breytt þannig að hvati myndist til veiða á stærri fiski og sé í þessu sambandi vísað til fylgiskjals nr. 2. Útgerðin telji óeðlilegt að sama verð sé greitt fyrir þorskinn óháð stærðinni enda sé stór þorskur mun verðmeiri en smár þorskur og hvetji til sóknar í smærri fiskinn.

Varnaraðili hafnar því alfarið að greitt sé sérstakt gjald fyrir að flokka fiskinn. Enginn rökstuðningur sé fyrir því að greiða beri fyrir flokkun á fiskinum. Sóknaraðili telur að um óverulega aukningu á vinnuframlagi sé að ræða fyrir flokkun sem ekki beri að greiða fyrir sérstaklega þó tillit hafi verið tekið til þess við gerð síðasta fiskverðssamnings að fiskurinn var flokkaður um borð. Fjárfesting útgerðarinnar í búnaði sem léttir störf eða leiðir til minna vinnuframlags áhafnar leiðir ekki til lækkunar fiskverðs. Þá sé á því byggt að vinnuálag sé ekki með þeim hætti að þó fiskurinn sé flokkaður, eins og raunar var gert þegar síðasti fiskverðssamningur var gerður, beri að greiða sérstaklega fyrir það.

Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að við verðákvarðanir eigi eingöngu að styðjast við upplýsingar um fiskverð á mörkuðum enda verð í beinum viðskiptum óeðlilega myndað. Hér sé um órökstuddar fullyrðingar að ræða sem ekki þurfi að elta ólar við, auk þess algjörlega sé horft fram hjá ákvæðum þeirra laga sem úrskurðarnefndinni ber að fara eftir. Þó sé rétt að benda á, varðandi meðalverð á þorski sem nefnt sé í greinargerð sóknaraðila að engin tilraun er gerð til að gefa réttar upplýsingar um verð á fiski af sambærilegri stærð og veiddum fiski hjá Páli Pálssyni ÍS-102. Ekki þurfi að koma á óvart að það verð sé umtalsvert lægri en það verð sem fram komi í greinargerð sóknaraðila.

Þá sé ekki unnt að láta hjá líða að benda á, að sú tilgáta að kaup á aflamarki til skipsins sé líkleg til að hafa áhrif á fiskverð, sé eins og fleira í málflutningi sóknaraðila, algjörlega órökstudd.

Á fylgiskjali nr. 9 komi fram meðaltal á verði þorsks unnið af Verðlagsstofu skiptaverðs úr samningum 44 togbáta úr samningasafni Verðlagsstofu skiptaverðs. Samkvæmt upplýsingunum sé tilboð útgerðarinnar hærra en það verð sem fram kemur sem meðalverð á fylgiskjali nr. 9.

Krafa sóknaraðila um hækkun verðs, á öðrum fisktegundum en þorski, sé með öllu órökstudd og því beri að hafna henni þegar á þeirri forsendu.

Af öllu framangreindu virtu telur varnaraðili að ljóst megi vera að engin efni séu til að verða við kröfum áhafnarinnar og að taka beri kröfur varnaraðila að fullu til greina.

III.

Forsendur og niðurstaða.

Í 11. gr. laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna er kveðið á um hin almennu atriði sem úrskurðarnefnd ber að leggja til grundvallar við ákvörðun sína um fiskverð. Þar segir:

„Úrskurðarnefnd skal við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa fiskverðs hefur safnað.

Nefndin skal við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Skal í því sambandi tekið mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Þá skal nefndin taka tillit til líklegrar þróunar afurðaverðs. Varðandi ákvörðun nefndarinnar um fiskverð í skiptum óskyldra aðila skal og taka tillit til heildarráðstöfunar á afla skips.”

Lagaákvæði þetta er efnislega samhljóða ákvæði 5. gr. eldri laga nr. 84/1995 um sama efni.

Samkvæmt þessu eru það þrjú atriði, sem úrskurðarnefnd ber að hafa til hliðsjónar og taka mið af, við verðákvörðun sína á fiski í beinum viðskiptum aðila. Þessi atriði teljast tæmandi löglegar viðmiðanir nefndarinnar við ákvörðun hennar um fiskverð í viðkomandi tilvikum.

Í fyrsta lagi er um að ræða upplýsingar frá Verðlagsstofu skiptaverðs en þeirri stofnun var komið á fót með lögum nr. 13/1998. Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í I. kafla laganna en í 3. gr. segir, að Verðlagsstofa skiptaverðs skuli afla ítarlegra gagna um fiskverð og með skipulegum hætti vinna úr upplýsingum sundurliðað yfirlit um fiskverð miðað við einstök landsvæði, tiltekna viðskiptahætti og stærðar- og gæðaflokka. Stofnunin skuli reglulega birta upplýsingar um fiskverð, þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best. Þá skuli stofan afla gagna um afurðaverð og þróun þess. Í 5. gr. er síðan kveðið á um skyldu Fiskistofu og annarra aðila til að tryggja að Verðlagsstofa geti sinnt lögboðnu hlutverki sínu.

Af hálfu sóknaraðila er dregið í efa að upplýsingar um meðalverð einstakra fisktegunda, sem birtar séu á vegum stofnunarinnar í beinum viðskiptum, endurspegli það verð sem raunverulega sé greitt fyrir aflann og því sé um ótraustan grunn að ræða.

Úrskurðarnefnd telur að ekki hafi verið sýnt fram á að upplýsingar Verðlagsstofu, sem frammi liggja í málinu, séu ekki réttilega unnar, eða að þær séu byggðar á ólögmætum sjónarmiðum. Það er hins vegar hlutverk úrskurðarnefndar að leggja mat á þessar upplýsingarnar, skoða þær aðferðir sem þær byggja á og túlka niðurstöður þeirra.

Af hálfu sóknaraðila hefur einkum verið bent á að viðskipti með kvóta sé sá þáttur sem einkum valdi skekkju á meðalverðinu í beinum viðskiptum með fisk.

Í lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins nr. 24/1986, sbr. lög nr. 79/1994 segir í upphafsmálsgrein 1. gr. að þegar afli fiskiskipa sé seldur óunninn hér á landi sé skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fái fyrir hann. Ekki sé heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum. Ljóst er samkvæmt þessu lagaákvæði að úrskurðarnefnd ber að leitast við að afla upplýsinga um fiskverð þar sem kaup á veiðiheimildum hefur ekki áhrif á verð.

Í þessu máli bendir ekkert atriði til þess, þegar litið er til þeirra meðalverða sem fyrir liggja af hálfu Verðlagsstofu skiptaverðs um fiskverð í botnvörpu á viðmiðunarsvæðinu, að kaup á veiðiheimildum hafi þar áhrif.

Í öðru lagi ber úrskurðarnefnd að taka mið af því fiskverði sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Í því sambandi segir að taka skuli „mið af verði í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum.”

Úrskurðarnefnd hefur ítrekað túlkað þau fyrirmæli, hvað varðar sambærilega ráðstöfun afla, að þar sé miðað við meðalverð enda hljóti það að endurspegla algengasta verðið.

Í lögskýringargögnum verður ekki ráðið hvað átt sé við í lögunum með „nærliggjandi byggðarlögum” Ljóst má þó vera, samkvæmt orðum greinarinnar, að líta skuli til ákveðinna landsvæða í þessu sambandi og þá einkum ákveðinna starfsvæða útgerða sem tengjast innbyrðis atvinnulega fremur en til landsfjórðunga, sýslna eða annarra stjórnsýslulegra eininga. Af orðalagi laganna má hins vegar gagnálykta sem svo, að við fiskverðsákvörðun sína skuli úrskurðarnefnd ekki líta til landsins í heild enda hefur úrskurðarnefnd í fyrri úrskurðum sínum jafnan litið svo á. Samkvæmt þessu ber að hafna því sjónarmiði sóknaraðila að miða beri við afla, sem veiddur sé í sama veiðarfæri um landið allt við verðlagningu í máli þessu.

Í þriðja lagi ber úrskurðarnefnd við verðákvörðun sína að taka tillit til líklegar þróunar afurðarverðs. Í máli því sem hér er til umfjöllunar er af hálfu aðila ekki byggt á þessari málsástæðu og kemur hún því ekki til skoðunar hér frekar.

Fiskverðssamningar milli útgerðar og áhafnar fiskiskips um fiskverð, sem nota skal við uppgjör á aflahlut í viðskiptum við skylda aðila, eru frjálsir. Aðilar geta því og hafa samið um markaðstenginu hluta afla. Hins vegar eru, eins og áður sagði í forsendum hér að framan, lögbundnar viðmiðunarheimildir úrskurðarnefndar tæmandi taldar í 11. gr. laganna. Þar af leiðir, að lagaskilyrði skortir til að sú krafa sóknaraðila nái fram að ganga, að verðákvörðun nefndarinnar eigi eingöngu að styðjast við upplýsingar um fiskverð á mörkuðunum. Til stuðnings þessu sjónarmiði ber einkum, umfram það sem áður hefur verið sagt, að líta til niðurlagsákvæðis greinarinnar .

Upplýsingar Verðlagsstofu skiptaverðs, sem liggja fyrir nefndinni um meðalverð á þorski á Vestfjörðum, Vesturlandi og Norðurlandi vestra, janúar til mars 2000 sýna að meðalverð í beinum viðskiptum sé 76,64 kr./kg.

Úrskurðarnefnd telur, að sú krafa sóknaraðila, að greiða skuli sérstakt gjald fyrir það að flokka fisk, falli ekki undir valdsvið úrskurðarnefndar um ákvörðun fiskverðs. Ber því að hafna henni.

Fulltrúar varnaraðila ásamt oddamanni telja að engin gögn bendi til þess að greiða beri hærra verð fyrir þorsk undir 1,4 kg að stærð. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila og miða við 65 kr./kg á þann stærðarflokk þorsks.

Fyrir þorsk 1,4 kg og stærri telur úrskurðarnefnd, þ.e. oddamaður ásamt fulltrúum varnaraðila, þegar litið er til gagna málsins að verð fyrir þennan stærðarflokk skuli vera 81 kr./kg.

Í málinu liggja frammi um verð á ýsu veidda í botnvörpu fyrir allt landið. Samkvæmt því er verð á ýsu í beinni sölu 86 kr./kg. Hins vegar er verð á sama viðmiðunarsvæði og þorski, að undanskyldu Norðurlandi vestra, en á því svæði liggur ekkert verð liggur fyrir, 73 kr./kg.

Oddamaður og fulltrúar varnaraðila samþykkja, með hliðsjón af gögnum málsins að verð á ýsu verði eftirfarandi

Undirmál 51,50 kr./kg

0,8 – 1,0 kg 74 kr./kg

1,0 kg og yfir 88 kr./kg

Steinbítur

Ekki er ágreiningur um verð milli aðila á steinbíti og ákveðst það 66 kr./kg

Aðrar tegundir:

Oddamaður ásamt fulltrúum varnaraðila telja að hafna beri kröfu sóknaraðila varðandi aðrar tegundir enda engin gögn sem styðja þá kröfu. Ber því að taka til greina kröfu varnaraðila um verð á öðrum fisktegundum verði hið sama og í fiskverðssamningi útgerðar og áhafnar frá 30.11.1998.

Úrskurður þessi skal gilda frá 15. júní til 15. september 2000.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Varnaraðili, Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf., skal við uppgjör til sóknaraðila, áhafnar Páls Pálssonar ÍS- 102 miða við eftirfarandi verð:

Þorskur.

Fiskur undir 1,4 kg. 65 kr./kg

Fiskur 1,4 kg og stærri 81 kr./kg

Ýsa:

Undirmál 51,50 kr./kg

0,8 – 1,0 kg 74 kr./kg

1,0 kg og yfir 88 kr./kg

Steinbítur

66 kr./kg

Aðrar tegundir:

Verð á öðrum fisktegundum verði hið sama og í fiskverðssamningi útgerðar og áhafnar frá 30.11.1998.

Úrskurður þessi skal gilda frá 15. júní til 15. september 2000.

Valtýr Sigurðsson
Friðrik J. Arngrímsson
Sturlaugur Sturlaugsson
Stefán Friðriksson