Fara í efni

Úrskurður nr. 5/2003

Árið 2003, þriðjudaginn 27. maí er haldinn fundur í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna í húsakynnum Landssambands ísl. útvegsmanna að Borgartúni 35 í Reykjavík.

Mættir eru Hólmgeir Jónsson, Árni Bjarnason og Jóhanna Eyjólfsdóttir frá samtökum sjómanna og vélstjóra, en Friðrik J. Arngrímsson og Sveinn H. Hjartarson mæta af hálfu LÍÚ. Formaður nefndarinnar Skúli J. Pálmason er einnig mættur.

Fyrir er tekið mál nr. U-5/2003:

Landssamband ísl útvegsmanna (LÍÚ)
f.h. Vinnslustöðvarinnar hf.
gegn
Sjómannasambandi Íslands,
Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands og
Vélstjórafélagi Íslands
v/ áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1

I.

Vinnslustöðin hf., Vestmannaeyjum vísaði til úrskurðarnefndar ágreiningi um fiskverð til áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1 með bréfi, dags. 7. þessa mánaðar. úrskurðarnefndar ásamt formanni og þá ákveðin málsmeðferð en ekki náðist samkomulag í málinu.

Bréfið er svohljóðandi: Þar sem útgerð og áhöfn Jóns Vídalín ÁR 1 (1275) hafa reynt án árangurs að ná samningum um nýtt verð fyrir þorsk, ýsu og karfa vísar útgerð skipsins málinu til úrskurðarnefndar. Kröfur Vinnslustöðvarinnar hf. sem útgerðar skipsins eru, að eftirfarandi lækkanir verði á fiskverði í fyrri samningi, sem sagt var upp m.v. 30. apríl sl.: Lækkun á þorski um 10%. Lækkun á ýsu um 20%. Lækkun á karfa um 10%. Í ljósi þeirrar öru lækkana sem verið hafa á afurða- og fiskverði undanfarna mánuði, og ekki sér fyrir endann á, er farið fram á að úrskurðurinn gildi ekki lengur en í 1 mánuð.

LÍÚ gætir hagsmuna Vinnslustöðvarinnar fyrir úrskurðarnefnd.

Fulltrúar hagsmunaaðila ákváðu á fundi, sem einnig var haldinn 20. þessa mánaðar, að tilkveðja formann nefndarinnar og leiða málið til lykta með úrskurði.

Á fundi nefndarinnar voru gögn málsins lögð fram. Þá tjáðu aðilar sig um fram komnar kröfur og færðu fram rök fyrir þeim. Málið var að því búnu lagt í úrskurð.

Fulltrúar LÍÚ skiluðu greinargerð til Verðlagsstofu skiptaverðs (VSS) 18. maí sl., en fulltrúar Sjómannasambands Íslands og Farmanna-og fiskimannasambandi Íslands 20. sama mánaðar. Helgi Laxdal gerði grein fyrir afstöðu Vélstjórafélags Íslands á fundi nefndarinnar 20. maí sl. og ítrekar Jóhanna Eyjólfsdóttir þá afstöðu formanns félagsins. Í máli þessu verður eftirleiðis vísað til fulltrúa LÍÚ sem sóknaraðila en til fulltrúa sjómanna sem varnaraðila.

II.

Síðast gildandi samningur milli Vinnslustöðvarinnar hf. og áhafnar Jóns Vídalíns ÁR1 var svohljóðandi:

Slægður þorskur

Kg  Kr/Kg Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg 
0,5 71 2,1 112 3,70 134 5,30 149
0,6 76 2,2 114 3,80 135 5,40 150
0,7 81 2,3 115 3,90 136 5,50 151
0,8 86 2,4 117 4,00 137 5,60 152
0,9 90 2,5 119 4,10 138 5,70 153
1,0 93 2,6 121 4,20 139 5,80 154
1,1 95 2,7 122 4,30 140 5,90 155
1,2 97 2,8 124 4,40 141 6,00 156
1,3 98 2,9 126 4,50 141 6,10 157
1,4 100 3,0 127 4,60 142 6,20 158
1,5 102 3,10 128 4,70 143 6,30 159
1,6 103 3,20 129 4,80 144 6,40 160
1,7 105 3,30 130 4,90 145 6,5+ 160
1,8 107 3,40 131 5,00 146    
1,9 109 3,50 132 5,10 147    
2,0 110 3,60 133 5,20 148    


Slægð ýsa

Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg 
0,7 66 1,5 115
0,8 72 1,6 118
0,9 78 1,7 120
1,0 85 1,8 123
1,1 91 1,9 125
1,2 97 2,0 128
1,3 103 2,1 130
1,4 109 2,2 133


Karfi

grömm Kr/Kg
900+ 62,7
700-900 54,2
400-700 48,5
400- 42,8


Ufsi:

4 kg. eða stærri 55 kr./kg. en ufsi undir 4 kg. 45 kr./kg.

Fullt verð miðaðist við góða meðferð aflans, s.s. ísun, þvott og frágang hans í kör, eins og nánar segir í samningnum. Um flokkun segir, að þorskur og ufsi skulu flokkaðir í 4 kg. eða eftir nánara samkomulegi, en ýsa flokkuð í þrjá flokka 2 kg. og stærri,1 til 2 kg. og minni en 1,2 kg. Karfi skuli flokkaður í tvo flokka þ.e. 800 gr. og stærri og minni en 800 gr.

LÍÚ, sem gætir hagmuna Vinnslustöðvarinnar hf., krefst óbreyttrar flokkunar og verður við það miðað í umfjöllun um kröfugerð sóknaraðila. Sama á við um ráðstöfun afla, en í fyrri samningi segir, að ráðstöfun afla sé í höndum útgerðarstjóra og aðrar fisktegundir en þær, sem að framan er getið, fari að öllu jöfnu á markað. Þessi krafa er einnig óbreytt af hálfu sóknaraðila.

Vinnslustöðin hf. sagði upp samningnum með bréfi til áhafnar dags. 15. apríl sl. og skyldi uppsögnin taka gildi frá og með 30. sama mánaðar.

III.

Kröfur sóknaraðila fyrir úrskurðarnefndinni eru eftirfarandi:

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar, sem áður er vísað til, krafðist Vinnslustöðin hf. lækkunar á verði þorsks, ýsu og karfa. Kröfugerð sóknaraðila LÍÚ, f.h. félagsins hönd, er sett upp með sama hætti og fyrri samningur félagsins við áhöfn Jóns Vídalín , en krafist er 10% lækkunar á verðlagningu á þorski og karfa, en 40% lækkunar á ýsuverði frá síðast gildandi samningi.

Ástæðulaust þykir, að gera frekari grein fyrir kröfum sóknaraðila, að öðru leyti en því, að þess er krafist, að gildistími úrskurðarins verði frá 9. maí til 9. júní þessa árs.

Rökstuðningur sóknaraðila:

Þorskur, ýsa og karfi.
Sóknaraðili byggir á því, að gerðardómur sá, sem skipaður var með lögum nr. 34/2001, hafi mælt svo fyrir, að á gildistíma hans skuli miða við það markmið, að meðalverð á slægðum og óslægðum þorski, slægðri og óslægðri ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila nálgist vegið meðaltal fiskverðs á innlendum fiskmörkuðum og verðs á fiski, sem sé ráðstafað í beinum viðskiptum, þannig að hlutfall verðs í beinum viðskiptum af vegnu meðalverði í beinum viðskiptum og vegnu meðalverði á fiskmörkuðum verði ekki lægra á viðmiðunartímanum en þau hlutföll sem skilgreind séu í gerðardóminum. Verðlagsstofa skiptaverðs skuli setja fram lýsingu á sambandi milli þyngdar á fiski og verðs á hvert kíló og skuli það haft til hliðsjónar til að ná þeim samningsmarkmiðum sem lýst sé í gerðardómnum. Um sömu markmið sé að ræða og í kjarasamningi LÍÚ og VSFÍ.

Verðlagsstofa hafi útfært fiskverð í beinum viðskiptum í samræmi við ákvæði gerðardómsins og hafi það verið lagt til grundvallar í samningum milli útgerða og áhafna íslenskra fiskiskipa. Nú liggi fyrir, að verð á slægðum þorski, slægðri ýsu og karfa sé hærra en forsendur séu fyrir, samkvæmt þeim markmiðum sem skilgreind séu í úrskurði gerðardómsins og samningi LÍÚ og VSFÍ, eins og glögglega komi fram í meðfylgjandi gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs.

Ufsi
Gerð er krafa um óbreytt verð á ufsa frá fyrra fiskverðssamkomulagi, dagsettu 24. mars sl.

Annað
Það eigi við um verðlagningu á öllum framangreindum fisktegundum, að veruleg styrking krónunnar hafi leitt til lækkunar á afurðaverði sbr. meðfylgjandi upplýsingar um vísitölur sjávarafurða frá Hagsstofu Íslands. Samkvæmt þeim hafi afurðaverðsvísitala þorsks í íslenskum krónum lækkað á bilinu um 12,8% til 17,7% frá janúar 2002 til mars 2003 . Afurðaverðsvísitala ýsu hafi haldið áfram að lækka og hafi lækkað um 26,4 % og sé illseljanleg á erlendum mörkuðum. Verðið hafi því lækkað á innlendum fiskmörkuðum um 45% á einu ári. Afurðaverðsvísitala karfa hafi einnig lækkað um 18,5% á sama tíma.

Kröfur og rökstuðningur varnaraðila.

Í greinargerð varnaraðila kemur fram, að áhöfn hafi gert kröfu um eftirfarandi breytingu á fiskverði:

Verð á þorski hækki um 10% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.
Verð á ýsu hækki um 20% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.
Verð á karfa hækki um 10% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.

Krafa Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Verð á þorski hækki um 10% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.
Verð á ýsu hækki um 40% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.
Verð á karfa hækki um 10% frá síðast gildandi fiskverðssamningi.

Fulltrúar varnaraðila byggja kröfur sínar, f.h. áhafnar Jóns Vídalíns, á því, að í síðustu tveimur málum, sem úrskurðarnefnd hafði til úrlausnar (Ú1/03 og Ú2/03), ásamt því máli, sem nú sé til meðferðar hjá nefndinni, hafi fulltrúar útvegsmanna greinilega talið, að hagsmunasamtök geti gert sérstakar kröfur fyrir nefndinni um breytingu á fiskverðssamningi, óháð því, hvað farið hafi fram í viðræðum milli áhafnar og útgerðar þess skips, sem málið varði. Með vísan til úrskurða nefndarinnar í málum Ú1/03 og Ú2/03 sé formaður úrskurðarnefndar sammála sjónarmiði fulltrúa LÍÚ hvað þetta varðar.

Með vísan til afstöðu fulltrúa útvegsmanna í úrskurðarnefnd og formanns úrskurðarnefndar geri Sjómannasamband Íslands og Farmanna- og fiskimanna-samband Íslands framangreindar kröfu um fiskverð, sem gildi fyrir Jón Vídalín ÁR-1.

Rökstuðningur:
Varnaraðili bendir á, að verð á þorski í beinum viðskiptum sem hlutfall af vegnu meðalverði þorsks í beinum viðskiptum og á fiskmörkuðum hafi verið 87,6% þann 1. febrúar 2002. Þetta hlutfall hafi hins vegar átt að vera 92,4% á þessum degi, samkvæmt úrskurði gerðardóms um kjaramál sjómanna. Því hafi vantað rúmlega 21% á til að verð á þorski í beinum viðskiptum uppfyllti markmið gerðardómsins. Því sé út í hött að krefjast lækkunar á þorskverði á þeirri forsendu að afurðaverð í íslenskum krónum hafi lækkað frá þessum tíma. Nýtt sé að fulltrúar LÍÚ vísi til verðþróunar á fiskmarkaði til rökstuðnings kröfum sínum. Fulltrúar sjómanna í úrskurðarnefnd fagni því, að fulltrúar LÍÚ í nefndinni skuli vera farnir að viðurkenna mikilvægi fiskmarkaðanna með þessum hætti. Verð á þorski hafi hækkað um tæp 2% á fiskmörkuðunum frá mars 2002 til mars 2003. Ef tekið sé tillit til fiskmarkaðanna og þeirrar 5% lækkunar, sem úrskurðuð var á þorskverð fyrir skömmu sé krafan um 10% hækkun á verði þorsks sanngjörn.

Um verð á ýsu og karfa vísist til úrskurðar gerðardóms og þeirra markmiða, sem uppfylla átti varðandi verð á þessum fisktegundum. Mikið hafi vantað á, að verð í beinum viðskiptum væri nægjanlega hátt í janúar 2002 til að uppfylla markmið gerðardómsins. Því sé órökrétt að krefjast lækkunar í samræmi við lækkun afurðaverðs frá þessum tíma. Krafa fulltrúa sjómanna um hækkun á verði ýsu og karfa sé í sama anda og lækkunarkrafa fulltrúa LÍÚ.

Niðurstaða:

Báðir málsaðilar byggja á ákvörðun lögskipaðs gerðardóms (eftirleiðis gerðardómurinn) um ákveðin markmið um verðlagningu á þorski, ýsu og karfa, sem málsaðilar skyldu ná á gildistíma úrskurðar gerðardómsins. Þessum markmiðum er nánar lýst hér að framan.

Í úrskurði gerðardómsins segir, að þessi aðlögun skuli gerast með jöfnum stíganda á samningstímabilinu, sem skilja verður svo, að átt sé við gildistíma úrskurðarins, þ.e. til 31. desember þessa árs. Þar er einnig mælt svo fyrir að Verðlagsstofa skiptaverðs (VSS) skuli annast alla nánari útreikninga og framsetningu og skeri úr hugsanlegum ágreiningi sem upp kunni að koma um túlkun á efnisatriðum. Úrskurðarnefnd er bundinn af fyrirmælum gerðardómsins við ákvörðun fisk-verðs og skal í störfum sínum kappkosta að settum markmiðum gerðardómsins verði náð.

Formaður nefndarinnar leitaði til VSS um upplýsingar um þróun og tengsl fiskverðs í beinni sölu og á fiskmarkaði. Samkvæmt upplýsingum VSS hefur markmiðum gerðardómsins verið náð að því er varðar þær fisktegundir, sem gerðardómurinn tók afstöðu til í úrskurði sínum.

Þorskverð:
Eftir 5% lækkun þorskverðs, sem úrskurðarnefnd ákvað í úrskurði sínum í máli nr Ú-1/2003, er hlutfall verðs á þorski í beinni sölu og á fiskmörkuðum lítið eitt hærra nú en það viðmiðunarverð, sem gerðardómurinn ákvað að vera skyldi, en stefnir í það, að óbreyttum ytri skilyrðum, að vera í jafnvægi miðað við markmið gerðardómsins í desember á þessu ári.

Allt fram á þetta ár hefur verð á þorski í beinni sölu verið undir settum markmiðum nefndarinnar. Fulltrúar hagsmunaaðila hafa hækkað af því tilefni verð á þorski í beinni sölu, sem leitt hefur leiddi til þess, að markmið gerðardómsins náðust varðandi verð á þorski í upphafi þessa árs með jöfnum stíganda, eins og gerðardómurinn ákvað að gert skyldi.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykja ekki vera efni til að fallast á kröfur sóknaraðila og lækka þorskverð í beinni sölu um 10%, enda sýnt að settum markmiðum gerðardómsins verður náð í desember á þessu ári, eins og áður er getið, né heldur að hækka þorskverð, eins og varnaraðili gerir kröfu til. Þorskverð til áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1 skal vera í samræmi við viðmiðunarverð VSS frá 25. febrúar sl.

Ýsuverð:
Verð á ýsu hefur lækkað verulega á fiskmörkuðum, sem leitt hefur til þess, að verð á ýsu í beinni sölu er nú langt yfir þeim markmiðum, sem gerðardómurinn setti. Þeim áfanga var náð í nóvember á síðasta ári.

Úrskurðarnefnd lækkaði verð á ýsu um 5% með áðurnefndum úrskurði sínum í máli nr Ú-1/2003 og aftur um 10% í úrskurði í máli nr. Ú-2/2003.

Þrátt fyrir þessa lækkun, spáir VSS því, að ýsuverð þyrfti að lækka umtalsvert miðað við líklega þróun, enda er verð á ýsu nú langt yfir viðmiðunarmörkum.

Með vísan til þessa telur úrskurðarnefnd rétt að lækka viðmiðunarverð VSS á ýsu um 15%, sem gilda skal einnig við uppgjör til áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1.

Um nánari útfærslu þessarar ákvörðunar vísast til úrskurðarorðs.

Karfaverð:
Úrskurðarnefnd ákvað einnig lækkun karfaverðs í áðurnefndum úrskurði, Ú-1/2003 um 5%.

Samkvæmt upplýsingum VSS, er karfaverð, þrátt fyrir þessa lækkun vel yfir viðmiðunarverði gerðardómsins og mun það verðbil haldast út árið að öðru óbreyttu.

Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefnd rétt að lækka viðmiðunarverð VSS á karfa um 6%, sem einnig skal gilda um uppgjör til áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1. Vísast til úrskurðarorðs um nánari útfærslu.

Úrskurðarorð:

Verð það, sem Vinnslustöðin hf. skal miða uppgjör til áhafnar Jóns Vídalíns ÁR-1 við skal vera sem hér segir:

Slægður þorskur

Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg
1,0 93,20 3,1 128,35 5,2 148,30 7,3 168,24
1,1 94,91 3,2 129,30 5,3 149,25 7,4 169,19
1,2 96,62 3,3 130,25 5,4 150,20 7,5 170,14
1,3 98,33 3,4 131,20 5,5 151,15 7,6 171,10
1,4 100,04 3,5 132,15 5,6 152,10 7,7 172,05
1,5 101,75 3,6 133,10 5,7 153,05 7,8 172,99
1,6 103,46 3,7 134,05 5,8 154,00 7,9 173,94
1,7 105,17 3,8 135,00 5,9 154,95 8,0 174,89
1,8 106,88 3,9 135,95 6,0 155,90 8,1 175,84
1,9 108,59 4,0 136,90 6,1 156,85 8,2 176,79
2,0 110,30 4,1 137,85 6,2 157,80 8,3 177,74
2,1 112,01 4,2 138,80 6,3 158,75 8,4 178,69
2,2 113,72 4,3 139,75 6,4 159,70 8,5 179,64
2,3 115,43 4,4 140,70 6,5 160,65    
2,4 117,14 4,5 141,65 6,6 161,60    
2,5 118,85 4,6 142,60 6,7 162,55    
2,6 120,56 4,7 143,55 6,8 163,50    
2,7 122,27 4,8 144,50 6,9 164,45    
2,8 123,98 4,9 145,45 7,0 165,40    
2,9 125,69 5,0 146,40 7,1 166,35    
3,0 127,40 5,1 147,35 7,2 167,30    


Slægð ýsa

Kg Kr/Kg Kg Kr/Kg
Undirmálsýsa 62,73 1,60 95,04
1,00 68,31 1,70 97,06
1,10 73,26 1,80 99,08
1,20 78,20 1,90 101,10
1,30 83,14 2,00 103,12
1,40 88,08 2,10 105,14
1,50 93,02 2,20 107,16


Karfi

grömm Kr/Kg
900+ 59,4
700-900 54,2
400-700 46,6
400- 40,2


Ufsi:

Óbreytt verð frá síðast gildandi samningi.


Önnur atriði í síðast gildandi samningi um meðferð og ráðstöfun afla skulu vera óbreytt.

Úrskurður þessi skal gilda frá 9. maí sl. til 9. júní n.k.

Skúli J. Pálmason
Friðrik J. Arngrímsson
Sveinn H. Hjartarson