Fara í efni

Úrskurður nr. 6/1998

Árið 1998, mánudaginn 11. nóvember er fundur haldinn í Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Mættir eru: Guðjón A. Kristjánsson, Sævar Gunnarsson, Helgi Laxdal, Sturlaugur Sturlaugsson, Kristján Ragnarsson, og Valtýr Sigurðsson, formaður nefndarinnar.

Fyrir er tekið mál nr.U-6/1998

Heildarsamtök sjómanna
fh. áhafnar Ásbjarnar RE-50

gegn

Granda hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

Úrskurður:

Með bréfi dagsettu 23. október., vísaði Benedikt Valsson f.h. Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, hér eftir nefndur sóknaraðili til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna ágreiningi um fiskverð við Granda hf. hér eftir nefndur varnaraðili. Í bréfinu segir svo: "Ágreiningur er um verð á botnfiski. Útgerðin hefur boðið sama samning um fiskverð og gerður var við áhöfn á Ottó N. Þorlákssyni RE-203 með þeirri undantekningu að gildistími verði frá 22. október 1998 í stað 1. september 1998. Áhöfnin hefur hafnað tilboði Granda hf. í atkvæðagreiðslu. Meðfylgjandi er beiðni áhafnarinnar um að málið verði tekið fyrir í úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, ásamt kröfu hennar um nýjan fiskverðssamning."

Erindið var tekið fyrir á fundi þann 6. nóvember sl. ásamt formann nefndarinnar, þar sem ekki náðist samkomulag með fulltrúum hagsmunaaðila í nefndinni. Greinargerð sóknaraðila, dags. 3. nóvember sl., svo og greinargerð varnaraðila, dags. 5. nóvember, voru lagðar fram á fundinum en málinu frestað til að gefa aðilum kost á að tjá sig um fram komnar kröfur. Á fundi nefndarinnar í dag gerðu fulltrúar aðila grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi og lögðu málið í úrskurð. Áður en gengið var til úrskurðar vék Sævar Gunnarsson af fundi.

II.

Kröfur sóknaraðila og helstu sjónarmið.

Krafa sóknaraðila er sem hér segir.

"Karfi: Undir 400 gr. 30 kr/kg, 400-800 gr. 52 kr/kg., 800 gr. og yfir 60 kr/ kg.

Þorskur: Undir 50 cm 70 kr/kg. Verð á slægðum þorski 50 cm og lengri skal miða við eftirfarnadi verðjöfnu: KR/KG = 70 +0,811 (L – 50) þar sem L = lengd á sl. þorski í cm.

Framangreind verð gilda aðeins þegar karfi eða þorskur fer til vinnslu hjá Granda hf. Ráðstafi fyrirtækið fiskinum til annarra fiskverkenda, skal verð á framangreindum tegundum miðast við meðalverð fiskmarkaða í Reykjavík, Hafnarfirði og á Suðurnesjum í sömu viku og landað er.

Aðrar fisktegundir en þær sem hér að framan eru tilgreindar verði seldar á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði.

Tekin verði meðalvigt og stærðarprufur af framangreindum fisktegundum í hlutfalli við veiðar pr. dag. Skipverjar hafa aðgang að prufutöku og niðurstöðum þeirra hvenær sem þeir óska. Niðurstaða meðalvigtar og stærðarflokkunar skal send um borð fyrir brottför hverrar veiðiferðar.

Samningur þessi gildir í þrjá mánuði frá undirskriftardegi. Sé samningnum ekki sagt upp 21 degi fyrir lok gildistíma, framlengist hann um einn mánuð í senn."

Til vara er gerð sú krafa að allar tegundir sem Ásbjörn RE-50 veiði verði ráðstafað til sölu á uppboðsmörkuðum í samræmi við hlut áhafnarinnar í aflamagni sérhverrar tegundar.

Sóknaraðili styður kröfu sína þeim rökum, að hann hafi mátt búa við óbreytt fiskverð allt frá febrúar 1996. Frá þeim tíma hafi verð á afurðum og hráefni á fiskmörkuðum hækkað umtalsvert. Þannig hafi verð á landfrystum afurðum hækkað um 20% í SDR og verð á söltuðum afurðum um 16%. Á sama tíma hafi verð á slægðum þorski á innlendim uppboðsmörkuðum hækkað um 22%. Í þessu sambandi sé vísað til 11. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

Sóknaraðila hafi verið boðið hliðstæður samningur og gerður var af hálfu varnaraðila við áhöfnina á Ottó N. Þorlákssyni RE-203 sem sé í eigu sama fyrirtækis. Því var hafnað. Vísað sé til 1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1998 til stuðnings kröfum.

Hvað varðar rökstuðning fyrir varakröfu fulltrúa sjómanna þá er hún á því byggð að með þeim hætti einum sé tryggt að aflahlutur áhafnarinnar sé gerður upp í samræmi við verð á fiskmörkuðum í öllum tegundum sem landað sé úr skipinu á hverjum tíma.

Kröfur varnaraðila og helstu sjónarmið.

Af hálfu varnaraðila er hafnað bæði aðal- og varakröfu sóknaraðila í málinu. Byggjast sjónarmið varnaraðila á því að í gildi sé samningur við áhöfn eins af tveim ísfiskskipum í eigu útgerðarinnar, þ.e. Ottós N. Þorlákssonar RE. Afli þess skips sé unninn með sambærilegum hætti og afli Ásbjarnar RE-50 og seldur á sama markaði. Mál sömu aðila hafi verið fyrir úrskurðarnefnd sbr. úrskurð dags. 22. febrúar 1996 þar sem deilt var aðallega um karfa og að nokkru um ufsa. Við rekstur þess máls hafi náðst samkomulag milli aðila um verðlagningu á þorski. Við það samkomulag hafi verið unað til þessa.

Afurðaverð umræddra fisktegunda hafi ekki breyst fyrr en á þessu ári, og sé tekið tillit til þess í tilboði varnaraðila til sóknaraðila. Sérstaklega er bent á að tekið sé upp sérstakt gæðaálag á þorsk, sem nemi 15% og komi til viðbótar. Allar líkur séu á því að þetta álag muni alltaf koma til greiðslu, þar sem ekki sé erfitt að uppfylla gæðakröfurnar. Samningur sá sem boðinn sé standist því fyllilega samanburð við það fiskverð sem almennt sé greitt í sambærilegum tilfellum.

Hvað varðar varakröfu málsins þá er á það bent að í kjaradeilum milli samtaka sjómanna og fulltrúa útvegsmanna hafi ítrekað verið lögð fram sú krafa að landaður ísfiskafli yrði boðinn upp á fiskmörkuðum. Þeirri kröfu hafi ávallt verið hafnað af fulltrúum útvegsmanna. Niðurstaða kjaraviðræðna milli þessara aðila hafi hinsvegar verið sú að skilgreina hvernig ákveða skuli leikreglur um samningsgerð fiskverðs milli aðila. Í kjarasamningi útvegsmanna og sjómanna gr. 1.26 kafla segi m.a. að útgerðarmaður og áhöfn skuli gera sín í milli samning um fiskverð, þegar útgerð selji afla til eigin vinnslu, þ.e.a.s. í viðskiptum milli skyldra aðila. Til að samningur öðlist gildi, skuli hann staðfestur í leynilegri atkvæðagreiðslu áhafnar og að því loknu undirritaður af fulltrúum áhafnar og útgerðar.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir máli sínu. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum en nefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

III.

Forsendur og niðurstaða:

Í 10. gr. laga um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna nr. 13/1998 segir: "Úrskurðarnefnd skal ákvarða fiskverð til uppgjörs á aflahlut sjómanna í þeim tilvikum sem til hennar er skotið skv. 9. gr. Gildir ákvörðun eingöngu um fiskverð gagnvart áhöfn þess skips sem málskotið varðar en ekki gagnvart áhöfnum annarra skipa sömu útgerðar." Af þessu lagaákvæði leiðir, að áhöfn er óbundin af samningum, sem útgerð hefur gert við áhafnir annarra skipa sinna. Ber því að fjalla sjálfstætt um hvert einstakt tilvik fyrir sig.

Í 11. gr. laganna er segir að úrskurðarnefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af upplýsingum sem Verðlagsstofa skiptaverðs hafi safnað. Ennfremur að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði sem algengast sé við sambærilega ráðstöfun afla og skuli hafa til hliðsjónar fiskverð í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk að stærð og gæðum. Ákvæði þetta er samhljóða 2. mgr. 5. gr. eldri laga um úrskurðarnefnd nr. 84/1995.

Í máli því sem hér liggur fyrir hefur varnaraðili lagt fram upplýsingar um fiskverð sem greitt er hjá þremur fyrirtækjum í nærliggjandi byggðarlögum. Þær upplýsingar sýna að verð það sem varnaraðili býður sóknaraðila í máli því sem hér er til meðferðar er að jafnaði hærra en þar er greitt.

Þá hefur varnaraðili sýnt fram á hér fyrir nefndinni að fiskverð það sem sóknaraðila er nú boðið er í öllum tilvikum hærra en það verð fyrir karfa og þorsk sem gilt hefur í samningi aðila til þessa. Því til viðbótar hefur verið bent á að í þeim samningi sem sóknaraðila stendur til boða sé ákvæði þess efnis að "Fyrir fisk sem ekki er með los og er blóðlaus, greiðist 15% gæðaálag." Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að gæðaálag þetta muni alltaf koma til greiðslu. Þessu hefur ekki verið andmælt af hálfu sóknaraðila en á það bent að það muni aldrei skila sér að fullu. Í þessu ákvæði felst því að unnt er að hækka verð aflahlutar að einhverju marki til viðbótar þeirri hækkun sem nú stendur sóknaraðila til boða í beinum krónutölum.

Þegar til þeirra atriða er litið sem hér hafa verið rakin þykir varnaraðili hafa sýnt fram á að verð það sem sóknaraðila stendur til boða sé í eðlilegu samræmi við fiskverð sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla í nærliggjandi byggðarlögum fyrir sambærilegan fisk. Þá ber ennfremur til þess að líta að fiskverðssamningur hefur tekist við áhöfn eins af skipum varnaraðila en afli þess skips er unninn á sambærilegan hátt og afli skips sóknaraðila.

Sóknaraðili hefur ekki gert kröfu um breytingu á einstökum atriðum í samningi þeim sem varnaraðili hefur boðið sóknaraðila heldur sett fram kröfu um breytingu á öllum fiskverðum og viðmiðunarstærðum þorsks og karfa. Miðað við slíka kröfugerð þykir verða að hafna aðalkröfu sóknaraðila í heild sinni.

Sóknaraðili gerir þá varakröfu að allar veiddar fisktegundir sem skipið veiðir verði ráðstafað til sölu á uppboðsmörkuðum í samræmi við hlut áhafnarinnar í aflamagni sérhverrar tegundar. Þessari kröfu hefur varnaraðili hafnað. Gegn andmælum varnaraðila ber að hafna þessari kröfu sóknaraðila enda skortir úrskurðarnefnd beina lagastoð til að taka hana til greina. Ber því að hafna henni.

Samkvæmt þessu skal fiskverð til sóknaraðila verða svo sem greinir í úrskurðarorði. Skal það gilda frá 23. október 1998 til 23. janúar 1999.

Að úrskurði þessum standa auk formanns nefndarmennirnir Kristján Ragnarsson, Sturlaugur Sturlaugsson. Á móti eru Helgi Laxdal og Guðjón A. Kristjánsson.

Úrskurðarorð:

Verð á karfa skal vera:

Stærð grömm kr/kg.
1000 og yfir 55,0
800-100 45,0
500-800 38,0
500 og undir 25,0

 

Verð á þorski skal vera:

Verð pr. kg ef í 100 kg. eru 20 fiskar 89,0 kr/kg.

Verð breytist fyrir hvern fisk um 0,6 kr/kg. til hækkunar ef færri fiskar en 20 eru í 100 kg. en til lækkunar ef fleiri fiskar en 20 eru í 100 kg.

Fyrir fisk sem ekki er með los og er blóðlaus, greiðist 15% gæðaálag.

Flokka skal fiskinn í tvo flokka, undir og yfir 4 kg. og við löndun er tekið úrtak og hlutfall aflans sem nýtur gæðaálags ákvarðað. Ef mat fer niður fyrir 90% í 1. flokk skal kalla stýrimann skipsins til.

Úrskurður þessi gildir milli málsaðila á tímabilinu frá 23. október 1998 til 23. janúar 1999.

 

Að úrskurði stóðu:

Valtýr Sigurðsson
Kristján Ragnarsson
Sturlaugur Sturlaugsson